141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[21:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara spyrja hv. þingmann, sem þekkir þetta mál augljóslega mjög vel, nánar um það. Hér hafa verið nefnd allra handa tæki og tól og ég veit ekki hvort allt heyrir undir lækningatæki, það er minnst á hjólastóla, verjur og ýmislegt annað. Er hv. þingmaður að segja að ástandið sé mjög alvarlegt með þær vörur sem eru á markaðnum núna? Ég held að flestir hafi staðið í þeirri meiningu að ekki sé hægt að flytja þær hingað til lands án þess að uppfylla ákveðin skilyrði. Út frá þeirri upptalningu sem hér hefur komið fram, virðulegi forseti, erum við þá að tala um að hér sé eitthvert alvarlegt ástand á ferðinni? Ég ætla ekki að fara í upptalninguna en mun örugglega gera það í umræðunni, þar var t.d. tannþráður og annað slíkt. Er ástandið þannig að við neytendur þessa lands séum bara í mikilli hættu vegna þess að ekki er búið að leggja á þetta gjald?