141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að við séum ekki í alvarlegri hættu út af einhverjum ákveðnum vöruflokkum, enda veit ég það einfaldlega ekki. Það sem ég legg áherslu á er að ef upp kemur hjá framleiðendum eða eftirlitsaðilum að vörur af ýmsu tagi sem fólk notar valdi heilsutjóni eða hafi að geyma efni sem eru alvarleg fyrir heilsu fólks sé mikilvægt að hægt sé að rekja af hverjum þær vörur hafa verið fluttar inn og hvar þeim hefur verið dreift.

Við þekkjum PIP-púðamálið og ýmis önnur mál. Við höfum sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki fullnægjandi eftirlit hvað þessa vöruflokka áhrærir. Ég tel mjög alvarlegt ef íslensk stjórnvöld ákveða að skella skollaeyrum við slíkum athugasemdum, enda er eftirlit til þess að tryggja öryggi neytenda. Ég skil vel að hv. þingmanni sé illa við það enda telur hann eftirlit aðallega hamla atvinnulífinu og vill kannski síður líta til neytenda, án þess að ég ætli að fullyrða um það.