141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[22:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leiðinlegt að hv. þingmaður gat ekki haldið sig við efni fyrirspurnarinnar en fór þess í stað að leggja út frá því hvaða skoðanir ég hef í pólitík. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég er fullfær um það sjálfur og þarf ekki aðstoð frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar við það og ætla ekki að elta ólar við það og reyna að kenna hv. þingmanni hvaða skoðanir ég hef, enda snýst málið ekkert um það.

Hv. þingmaður nefndi brjóstapúðamálið. Brjóstapúðamálið er tilkomið vegna mistaka hjá eftirlitsstofnun á vegum ríkisins. Það hefur komið fram í umræðum um málið að sá aðili sem flutti þá inn fór þess á leit við landlæknisembættið, þegar hann hafði grunsemdir um að eitthvað væri komið upp, að eitthvað yrði gert í málinu. Það var því miður ekki gert eins og við þekkjum.

Hv. þingmaður segir að við þurfum að setja þetta gjald til að hægt sé að rekja hver hafi flutt inn vörurnar og hvar þeim hafi verið dreift. Ég spyr hv. þingmann: Er það eitthvert leyndarmál núna? Er það hulið hvaða framleiðendur eru á bak við þær vörur sem hafa verið fluttar inn til landsins? Ég kannast ekki við það. Það að setja sérstakt gjald á vörur, hvort sem það eru hjólastólar eða smokkar, til að hægt sé að rekja hvaðan vörurnar koma eða hver flutti þær inn, ég held að það geti ekki staðist. Þetta er vitað. Í flestum tilfellum þurfa menn að sækja um og fara í gegnum eitthvert ferli áður en þeir flytja inn vörur til Íslands. Það er ekki þannig að þetta sé fullkomlega í myrkrinu nema hv. þingmaður geti nefnt dæmi þar um. Ég held að það væri mjög æskilegt, því að röksemdafærsla hv. þingmanns, að minnsta kosti miðað við hvernig hún kom fram í þessu andsvari, gengur tæplega upp.