141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Já, frú forseti, hv. þingmaður er ekki ánægður með svör mín og vill að ég haldi mig við spurninguna sem var hvort ég teldi íslenskum almenningi standa ógn af þeim smokkum sem væru á markaði. Ég get svarað þeirri spurningu með nei-i, frú forseti. Ég svara hv. þm. Guðlaugi Þór …

(Forseti (RR): Þórðarsyni.)

Ég svara hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þeirri spurningu neitandi. Ég held að íslenskum almenningi stafi ekki alvarleg hætta af smokkum, en ég tel mjög mikilvægt að þau lækningatæki, sem smokkar t.d. falla undir, sem talin eru eiga að sæta sérstöku eftirliti geri það af því það sé í þágu öryggis neytenda. Ég tel mikilvægt að við hér á Íslandi tryggjum íslenskum neytendum og sjúklingum eðlilegt öryggi. Mér fannst svar mitt, frú forseti, ákaflega skýrt og endurtek að þetta eftirlit er til að auka rekjanleika þessara vara og til að tryggja öryggi íslenskra neytenda.