141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[22:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um einhvern misskilning að ræða. Fram til þessa hefur engum dottið það í hug að skynsamlegt væri að taka valdið frá þinginu um það hvað á að vera á hendi Sjúkratryggingastofnunar og færa það yfir til ráðherra. Við erum að færa þetta yfir til ráðherra af því að ráðherra á að ákveða vissa þætti í reglugerð. Ég held að allir þeir sem farið hafa yfir þau mál hafi gagnrýnt það fyrirkomulag að við séum að færa, og höfum þegar fært of mikið vald til ráðherra með reglugerðarheimildum.

Ég spyr hv. þingmann þess vegna: Er hv. þingmaður fylgjandi því? Þetta er auðvitað fordæmisgefandi. Ég hélt einhvern veginn að menn væru nú þeirrar skoðunar, sérstaklega ný kynslóð þingmanna, að lýðræðislega kjörnir þingmenn tækju ákvörðun um það fyrir hönd þjóðarinnar en ekki að slíkt vald væri fært til ráðherranna.

Það hefur ekkert með niðurskurð að gera og það er margoft búið að ræða það í umræðunni, það er búið að fara í gegnum nefndina, það hefur ekkert með niðurskurð að gera. Þvert á móti er ástæðan fyrir því að farið var í þetta sú að menn töldu að hægt væri, og við getum sýnt fram á það með dæmum, að ná hagkvæmari niðurstöðu, betri samningum með því að hafa þetta á einum stað og nýta þá hugmyndir sem við höfum fengið annars staðar frá og þá sérstaklega frá Svíþjóð, í það minnsta þegar farið var af stað með málið, (Gripið fram í.) þ.e. með því að fara þessa leið.

Alltaf hefur verið talað um að fara ætti af stað vinna til þess að klára þetta mál. Menn geta farið í gegnum þingumræðuna og séð hvað sagt var í umræðunni. Það er þá bara gott að fá það fram ef aldrei stóð til að klára þá vinnu að menn eigi þá rétt á að fá að vita það, þótt ekki væru aðrir en kjósendur Samfylkingarinnar. Þess vegna spyr ég hv. þingmann (Forseti hringir.) annars vegar út í reglugerðina og hvort það sé vilji hennar að færa hlutina meira þangað, og eins (Forseti hringir.) hvort í raun hafi aldrei verið vilji til þess að gera þetta.