141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta velferðarnefndar sem ég sit í ásamt hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Mig langar í ljósi þess hve framsöguræðan frá þeim sem talaði fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar var stutt að fara í örstuttu máli yfir forsögu þessa máls.

Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar skulu Sjúkratryggingar Íslands annast alla samningsgerð um kaup á heilbrigðisþjónustunni. Lögin tóku gildi í október 2008 og þar var gert ráð fyrir að ákveðinn kafli laganna er varðar samninga, og ég ætla að fjalla aðeins um í kvöld, sem heilbrigðisráðuneytið hafði gert kæmi til framkvæmda eigi síðar en í júlí 2009. Það gekk að mestu leyti eftir en það var jafnframt fyrirhugað að ákveðnir samningar við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samningar við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili kæmu til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2010. Það gekk ekki eftir og því var frestað, fyrst til 1. janúar 2012 með því lagafrumvarpi sem við ræddum fyrir tveimur árum síðan.

Í það sinn var lögð fram tillaga af hálfu ráðuneytisins. Upphaflega frumvarpið var þannig að fresta átti gildistökunni um þrjú ár en hætt var við það í meðferð Alþingis. Þingið sýndi þar vilja sinn til þess að því yrði aðeins frestað í eitt ár og hafnaði þeirri leið að geyma það í þrjú ár. Núna erum við í þeirri stöðu að á hverju einasta ári ræðum við frestun á gildistöku rétt fyrir jólin.

Þegar við lesum lögin um sjúkratryggingar finnum við ítarlega lýsingu á því hvaða fyrirkomulag og aðferðafræði er hugsuð varðandi samningsgerðina og hvernig stofnunin á að sinna því hlutverki. Þar eru gerðar margháttaðar kröfur um uppbyggingu og þróun bæði til Sjúkratrygginga og eins þeirra aðila sem gert er ráð fyrir að stofnunin semji við. Talið var og er af hálfu meiri hlutans að stofnunin hafi ekki yfir að ráða nauðsynlegum mannafla og fjárveitingum eða sé nógu sterk til að sinna því hlutverki sem henni ber samkvæmt lögum. Þess vegna er árlega lagt fram frumvarp um að fresta málinu.

Þingið hefur valið að fresta ávallt í eitt ár þrátt fyrir að komið hafi fram tilraunir frá ráðuneytinu til að leggja fram lengri fresti. Nú horfum við upp á að verið er að tala um frestun til tveggja ára. Því hefur ekki verið svarað hvernig tíminn hefur verið notaður, þ.e. þetta ár sem er liðið síðan ég stóð síðast í þessum stól og var að ræða nákvæmlega sama mál með sömu rökum.

Mig langar að rifja aðeins upp að fyrir ári síðan hélt ég ræðu um þetta mál og var það ekki í fyrsta skipti þar sem því hafði áður verið frestað. Þá gerði ég að tillögu minni að það yrði fest og við gengum út frá því að ekki yrði um að ræða frestun í ár. Fyrst framkvæmdarvaldið hunsaði vilja Alþingis fyrir ári síðan kallaði ég eftir því að Alþingi krefðist þess að ráðuneytið legði fram einhvers konar tímaramma eða tímalínu um hvaða verkefni þurfti nákvæmlega að ráðast í til að tryggja að ekki kæmi til frestun núna ári síðar. Ég taldi á þeim tíma algjörlega nauðsynlegt að ráðuneytið mundi leggja fram slíkt plan þannig að við í þinginu sæjum að framkvæmdarvaldið ætlaði sér ekki að hunsa vilja Alþingis enn einu sinni.

Þetta hefur því miður ekki orðið raunin. Hins vegar ítreka ég þessa hugmynd mína og tel einfaldlega að það verði að leggja fram slíkt plan svo fólk viti að hverju það gengur. Það er auðvitað ólíðandi að við skulum standa hér ár eftir ár og tala alltaf um að fresta sama málinu. Ef það er ekki vilji til þess hjá meiri hluta Alþingis að hafa hlutina svona af hverju er það þá bara ekki sagt í staðinn fyrir að segja fyrir ári síðan að menn séu ekki tilbúnir til að fresta málinu lengur en í eitt ár? Það hlýtur að hafa þýtt, eða ég skildi það þannig, að menn ætluðu sér ekki að fresta málinu lengur.

Frú forseti. Umsagnaraðilar leggjast eins og við í minni hlutanum gegn áframhaldandi frestun á gildistöku þess ákvæðis.

Í umsögn Sjúkratrygginga Íslands kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Sérstök athygli er vakin á því að þetta er í fjórða sinn sem lagt er til að fresta fullri gildistöku laga um sjúkratryggingar með sérstökum lögum. Í þrígang hefur henni verið frestað um eitt ár, fyrst með lögum frá 2009, þá lögum frá 2010 og síðast með lögum nr. 155 frá 23. desember 2011. Nú er lagt til að fresta óskoraðri gildistöku laganna um tvö ár.“

Læknafélag Íslands segir:

„Varðandi frestun framkvæmdar IV. kafla laga nr. 112/2008 þá kemur fram í frumvarpinu að Sjúkratryggingar leggjast gegn frekari frestun. Upphaflega áttu ákvæði kaflans að öðlast gildi 1. janúar 2009. LÍ telur eðlilegt að horft sé til afstöðu þeirrar stofnunar sem framkvæmir lögin, þegar kemur að gildistöku þessa kafla.“

Síðan rekjum við afstöðu Samtaka atvinnulífsins í minnihlutaálitinu sem er á sama veg.

Hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Samtök atvinnulífsins hafa af því áhyggjur að verði umrætt frumvarp að lögum þá frestist enn um sinn að Sjúkratryggingar Íslands geti sinnt því mikilvæga hlutverki sem nefnt var að framan“, þ.e. hér í þessari umsögn.

Þetta leiðir allt að sömu rökum. Það er vanhugsað að nýta ekki trekk í trekk tímann sem ráðuneytið hefur til undirbúnings þess að lögin taki gildi. Árið hefur ekki verið nýtt á neinn hátt til að undirbúa það vegna þess að það er greinilega ekki vilji til þess hjá framkvæmdarvaldinu þrátt fyrir afstöðu Alþingis. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem maður upplifir það hér, og sérstaklega ekki inni í velferðarnefnd, að svo sé málum farið. Við í þinginu og í velferðarnefnd reynum að eiga gott samstarf. Við reynum að tala okkur saman um niðurstöðu í mörgum málum og oft er það þannig að við horfum til framtíðar og sjáum fyrir okkur ákveðnar breytingar en þegar á reynir eru það alltaf ráðuneytin sem hafna hugmyndum okkar og beita sér gegn breytingum sem velferðarnefnd vill sjá verða að veruleika. Þetta er eitt slíkt mál.

Annað mál sem kemur upp í hugann núna er reyndar mál sem heyrir til innanríkisráðuneytisins og það eru barnalögin og breytingarnar á þeim varðandi sáttameðferðina, sem ekki var gert ráð fyrir fjárveitingum til í fjárlögum sem lögð voru fram í haust. Niðurstaðan er sú að fara aðeins hluta leiðarinnar þrátt fyrir að það hafi verið grundvallaratriði í því að málið væri afgreitt í nokkurn veginn fullkominni sátt úr nefndinni að þessi sáttaleið yrði farin og í hana kæmu fjármunir.

Herra forseti. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þetta frumvarp. Ég tel það lýsandi fyrir það hvernig framkvæmdarvaldið hunsar vilja Alþingis trekk í trekk og af því hef ég miklar áhyggjur.