141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[22:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

Nefndin fékk á sinn fund gesti frá velferðarráðuneyti, umboðsmanni skuldara og fulltrúum gjaldskyldra aðila.

Með frumvarpinu er lagt til að álagningarstofn 1. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara hækki úr 0,03% af öllum útlánum gjaldskyldra aðila, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og verði 0,0343% af öllum útlánum viðkomandi aðila í lok árs miðað við ársreikning.

Fulltrúar gjaldskyldra aðila sem komu á fund nefndarinnar fjölluðu um að úrvinnsla mála hjá embætti umboðsmanns skuldara væri of hæg og tæki of langan tíma. Sú gagnrýni hefur áður heyrst en nefndin telur rétt að taka fram að embættið er ungt og var sett á stofn til að sinna flóknum skuldaúrvinnsluverkefnum, sem hafði ekki verið tekist á við áður, samkvæmt nýrri og óreyndri löggjöf. Er því óhjákvæmilegt að það taki nokkurn tíma að slípa til verklag og þau lög sem embættið vinnur eftir. Þá er einnig ljóst að ekki er embættinu einu um að kenna varðandi málsmeðferðartíma heldur ljóst að viðsemjendur umboðsmanns skuldara, kröfuhafar skuldara og gjaldskyldir aðilar koma þar einnig að. Telja verður það hag allra að mál fái nokkuð skjóta afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara.

Ekki er mikil reynsla af rekstri embættis umboðsmanns skuldara og því erfitt um vik um áætlanagerð. Á fundi nefndarinnar kom fram af hálfu umboðsmanns að nú þegar komið er á þriðja ár frá stofnun embættisins væri rétt að staldra við og endurskoða hlutverk embættisins, kanna hvað hefði gengið vel og hvað hefði farið úrskeiðis, hvaða verkefni ættu best heima hjá embættinu og hver ekki. Þá er mikilvægt að hugað verði að stefnumótun embættisins og framtíðarhlutverki þess. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur eðlilegt að horft verði til þessara atriða á næstu missirum þar sem búast má við að það taki að hægja á nýjum umsóknum um greiðsluaðlögun til umboðsmanns skuldara og bendir í þessu samhengi jafnframt á að með þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 21. mars sl. á þskj. 1032 ályktaði Alþingi að skipuð skyldi nefnd sem gerði úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði á Íslandi með það fyrir augum að styrkja stöðu viðskiptavina fjármálafyrirtækja. Nefndin á m.a. að skoða verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana sérstaklega og gera tillögur um breytingar ef þörf krefur. Þar undir er embætti umboðsmanns skuldara rétt eins og Fjármálaeftirlitið, talsmaður neytenda og Neytendastofa, en allt eru þetta aðilar sem koma að neytendavernd á fjármálamarkaði með einhverjum hætti.

Að þessum athugasemdum virtum leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálit þetta rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður og framsögumaður, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Skúli Helgason, Árni Þór Sigurðsson og Guðmundur Steingrímsson.