141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Undir þetta nefndarálit ritar auk mín hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir.

Þetta frumvarp vekur upp margar spurningar. Í fyrsta lagi vekur það spurningu um það sem greinilega fór úrskeiðis í rekstri stofnunarinnar, umboðsmanns skuldara, á síðasta ári. Rekstrarhalli stofnunarinnar var um 250 millj. kr. á síðasta ári og nú er farin sú leið að leggja á viðbótargjald á næsta ári til að standa straum af því sem vanmetið var í rekstri stofnunarinnar á yfirstandandi ári. Því þarf nauðsynlega að svara hvað í rauninni hafi gerst í rekstri stofnunarinnar sem hafi leitt til um 25% framúrkeyrslu á rekstri hennar. Fjárveitingar voru áætlaðar í kringum 1 milljarður kr. á þessu ári, en frumvarpið leggur til að bæta í tæpum 250 millj. kr.

Þetta er eitt út af fyrir sig. Það sem vekur hins vegar miklu stærri spurningar er næsta ár, árið 2013. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir því að lækka útgjöld stofnunarinnar um 170 millj. kr., þó að núna séum við að taka afstöðu til þess að hækka framlögin til stofnunarinnar til að standa straum af rekstrarhalla upp á 250 millj. kr. á síðasta ári. Hér er augljóslega eitthvað óskaplega mikið að í þessari áætlun, hvort sem það er vegna áætlunar stofnunarinnar eða pólitískra ákvarðana sem hafa verið teknar við ríkisstjórnarborðið við undirbúning þess fjárlagafrumvarps sem við ræðum á næstu dögum.

Ástæðan sem tilgreind er í greinargerð sem fylgir fjárlagafrumvarpinu er sú að umsvif stofnunarinnar séu að minnka og gert sé ráð fyrir að hún muni dragast saman á næsta ári í takt við fækkun mála. Meginþungi starfseminnar muni fyrst og fremst snúast um að ljúka samþykktum greiðsluaðlögunarmálum, auk þeirra mála sem talið er að berist til stofnunarinnar á árinu 2013. Þetta var sagt um miðjan september. Þá töldu menn að það væri búið að ná utan um lungann af vandamálunum og fyrst og fremst blasti við stofnuninni að vinna úr þeim málum sem til hennar höfðu borist. Þess vegna væri óhætt að lækka fjárframlagið sem var samþykkt í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár um 170 millj. kr., sem þó hefur komið á daginn að var 20–25% lægra en það þurfti að vera þegar upp var staðið. Við sjáum að munurinn á þessu er himinhrópandi. Þarna munar í raun og veru 250 plús 170 millj. kr. Við erum að tala um 400 milljóna skekkju á milli þegar við skoðum málið í þessu samhengi. Nú þremur mánuðum síðar komast menn skyndilega að þeirri niðurstöðu að óraunhæft sé að skera niður rekstur stofnunarinnar um 170 millj. kr., sem menn töldu hins vegar raunhæft um miðjan september þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Allar væntingar um að við séum að ná utan um þennan greiðsluvanda, sem fjárlagafrumvarpið byggði þó augljóslega á, eru greinilega runnar út í sandinn. Þetta er spurning sem við þurfum að fá úr leyst: Hvort hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir hafi verið svo gjörsamlega blindir á þá stöðu sem uppi er varðandi skuldavanda heimilanna að þeir hafi ímyndað sér að það væri búið að ná svo vel utan um verkefnið að hægt væri að skera niður fjárframlögin um 170 milljónir frá yfirstandandi fjárlögum, sem þó dugðu ekki til og vantaði 250 millj. kr. eða 25% upp á.

Það sem er að koma á daginn er að menn hafa ekkert náð utan um það sem við höfum kallað skuldavanda heimilanna. Þessi vandamál eru til staðar og úrlausn er ekki í sjónmáli. Það er ekki bara þannig að stofnunin eigi eftir mörg ófrágengin mál heldur er ekki búið að ná fram ýmsum málum sem stofnunin hefur lokið afgreiðslu sinni á vegna þess að tilsjónarmenn, sem fá síðan málið í hendurnar, hafa ekki lokið uppgjöri þeirra. Hin endanlega úrlausn fyrir skuldarann er þess vegna ekki í höfn.

Það hefur líka komið fram að mörg ný mál eru að koma inn til stofnunar umboðsmanns skuldara, einstaklingar sem ekki voru í vanda eru nú komnir í vanda. Það er ljóst að vonir manna í september um að við værum að ná utan um skuldavandann hafa alls ekki ræst. Við erum enn í miðju þessu ferli og sjáum ekkert út úr því. Það er auðvitað hið mesta áhyggjuefni. Við þurfum að fá úr því skorið hvort þetta hafi verið vanmat af hálfu ráðuneytisins eða hvort þetta hafi verið sameiginlegt mat ráðuneytisins og stofnunarinnar.

Þetta leiðir hugann að því hvort við höfum verið á réttri braut með nálgun okkar á úrlausn á skuldavanda heimilanna. Auðvitað er þar mjög margt ógert.

Heildarskuldalækkun heimilanna frá haustdögum 2008 er í kringum 200 milljarðar kr. Er hér um að ræða meðvitaða stefnu ríkisstjórnarinnar við að lækka skuldir heimilanna? Er þetta skjaldborgin sem boðuð var í Norræna húsinu vorið 2009? Er þetta afrakstur af pólitískri stefnumörkun og aðgerðum sem boðað hefur verið til, m.a. á grundvelli starfs umboðsmanns skuldara, með 110%-leiðinni eða sértækri skuldaaðlögun? Svarið, virðulegi forseti, er því miður nei, þetta er ekki afrakstur af því. Hins vegar er státað mjög af því að skuldir hafi lækkað svo mjög vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar og þegar erlendir sérfræðingar eru kallaðir þá m.a. horfa þeir á þessar tölur um lækkun skulda heimilanna upp á 200 milljarða kr. og draga þær ályktanir að það hafi verið mjög mikið gert í því að reyna að lækka allt of háar skuldir sem einstaklingarnir hafa búið við og fyrirtækin raunar líka.

Þegar við skoðum upplýsingar sem komu m.a. fram í svari hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram og var nýlega dreift á Alþingi, þskj. 575 í 72. máli, kemur á daginn að endurútreikningur erlendra fasteignalána nemur meira en 50% af þessari skuldalækkun, þ.e. 110 milljörðum kr., og endurútreikningur vegna erlendra bílalána nemur tæpum 40 milljörðum kr. Þetta eru samtals 150 milljarðar kr. af 200 milljarða heildarskuldalækkun. Þetta þýðir að um 75% af skuldalækkun heimilanna stafa af því að þessi lán voru ólögleg og því mátti ekki innheimta þau. Þetta var með öðrum orðum ekki pólitísk aðgerð heldur afleiðing af því að lög sem menn héldu að stæðust stóðust ekki.

Þegar við því tökum þetta saman blasir við að niðurfærslan á skuldum heimilanna er að langmestu leyti afleiðing af því að lánin voru í ósamræmi við lög. Það mátti ekki innheimta þau. Þau stóðu með röngum hætti í efnahagsreikningum bankanna og þau voru ranglega gjaldfærð og skuldfærð á einstaklingana og fyrirtækin, eftir atvikum. Það er þetta sem veldur því að skuldir heimilanna hafa lækkað og það er þetta sem veldur því í ýmsum tilvikum að skuldir margra fyrirtækja hafa líka lækkað.

Þá komum við að því sem hefur verið á borðum annars vegar stjórnvalda og hins vegar bankanna. Þetta er 110%-leiðin svokallaða, þ.e. að lækka skuldir þeirra einstaklinga sem eru með lán umfram 110% af matsverði eða fasteignamati fasteignar. Að hluta til líka það verkefni sem hefur verið kölluð sértæk skuldaaðlögun. Þessi hluti skuldalækkunarinnar er afrakstur annars vegar stefnumótunar stjórnvalda og hins vegar ákvarðana bankanna, þannig að ríkisstjórnin getur ekki einu sinni eignað sér þetta að öllu leyti. Við getum því sagt að þetta sé skjaldborgin umtalaða og hún nemur þá í hæsta lagi, ef við tökum ákvarðanir bankanna með, um 25% af skuldalækkuninni.

Þegar við skoðum þessi mál öll í samhengi við það fjármagn sem er varið til embættis umboðsmanns skuldara, á annan milljarð kr. núna á ári, er augljóst að tilefni er til að endurmeta þessar aðferðir. Ekki til að gera minna fyrir skuldug heimili, þvert á móti, heldur til að sjá hvort við getum ekki farið einhverjar aðrar og skjótvirkari leiðir. Leiðir sem skila raunverulegum árangri, leiðir sem eru raunveruleg skjaldborg en ekki það sem við sjáum núna.

Þess vegna erum við komin á þann tímapunkt eftir þá reynslu sem við höfum af löggjöfinni varðandi 110%-leiðina, sértæku skuldaaðlögunina og rekstur umboðsmanns skuldara í núverandi mynd, að það er komið fullt tilefni til endurmats. Það verður ekki gert við afgreiðslu þessa máls hér, en augljóst er að slíkt endurmat er algjörlega óhjákvæmilegt í ljósi þess að skuldalækkun heimilanna á að langmestu leyti rætur sínar að rekja til ólöglegra gengislána. Kostnaður við rekstur umboðsmanns skuldara er mikill og í raun langt umfram þær áætlanir sem gerðar hafa verið um rekstur embættisins og birtast í fjárlögum, og þetta frumvarp er í rauninni að reyna að taka utan um. Ekki með því að afgreiða það í fjáraukalögum, sem hefði þó kannski verið eðlilegast, heldur með því að leggja viðbótarskatt á fjármálastofnanir sem mun síðan leiða til þess að þær verða að velta þeim kostnaði einhvern veginn af höndum sér, annaðhvort yfir á lántakendur eða með því að fækka starfsfólki í bönkum. Það er sem sagt verið að hækka gjaldið á þessi fjármálafyrirtæki til þess að þau geti staðið undir þessum aukna rekstri, sem er ekki í samræmi við þær áætlanir sem stjórnvöld kynntu okkur.

Markmið þessa endurmats sem hér er kallað eftir hlýtur að vera að leita annarra og skjótvirkari leiða til að ná markmiðinu um að lækka skuldir heimila sem búa við mikla skuldabyrði.

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja til þess að þetta endurmat fari núna fram. Það er orðið mjög brýnt tilefni, sem við sjáum af þessari umræðu allri saman, og það verður líka að fara mjög rækilega ofan í hvort þær forsendur sem núna er lagt upp með við rekstur umboðsmanns skuldara séu ábyggilegri en þær forsendur sem lagt var af stað með í fyrra og stóðust á engan hátt. Það vekur auðvitað ekki mikið traust þegar við fáum í hendurnar fjárlagafrumvarp um miðjan september þar sem boðað er að draga eigi úr rekstrarumfangi stofnunarinnar um 170 millj. kr. og síðan snúið til baka með það þremur til þremur og hálfum mánuði síðar. Það eykur ekki beinlínis traust manns á því að menn viti eitthvað um hver staðan er. Fyrir utan þær vísbendingar sem hafa komið fram um mikið nýgengi vanskila, þ.e. að stöðugt sé að koma fólk inn á sviðið sem býr við erfiðleika í sínum heimilisrekstri, miklar skuldir sem það ræður ekki við og leitar til umboðsmanns skuldara — hér um bil einn maður á dag eftir því sem mig minnir — þá hlýtur þetta að kalla á ákveðið endurmat á því fyrirkomulagi sem við höfum og hefur ekki reynst nægilega vel.