141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu tengjast flutningi málaflokka og verkefna milli ráðuneyta á grundvelli forsetaúrskurðar nr. 100, dagsettum 30. ágúst 2012, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það kemur náttúrlega í kjölfarið á því að með þessum úrskurði eru fimm ráðuneyti sameinuð í þrjú.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar. Þær fela í sér að stjórn stofnunarinnar verði lögð af. Þær fjalla einnig um skipan ráðgjafarnefndar við stofnunina, að henni verði breytt og hlutverk hennar einskorðist við umfjöllun um langtímarannsóknir. Í þriðja lagi er lagt til að stofnuð verði samstarfsnefnd tveggja ráðuneyta, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, um mótun langtímanýtingarstefnu fyrir fiskstofna og aðrar lifandi auðlindir hafsins. Einnig er lagt til að samhliða flutningi málefna dýraverndar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis flytjist eftirlit með framkvæmd laga nr. 15/1994, um dýravernd, frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar.

Meiri hluti nefndarinnar telur að þær breytingar sem lagðar eru til á stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar séu til þess fallnar að skýra valdsvið og ábyrgð forstjóra á stjórnun stofnunarinnar. Hvað varðar ráðgjafarnefnd og breytingar á ráðgjafarnefnd Hafrannsóknastofnunarinnar verður hlutverk hennar samkvæmt frumvarpinu að fjalla um langtímarannsóknastefnu fyrir stofnunina, vera forstjóra til ráðuneytis og fjalla um starfsáætlanir stofnunarinnar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að við þessar breytingar væri eðlilegt að starfsmenn stofnunarinnar tilnefndu fulltrúa sinn í ráðgjafarnefndina eins og þeir hafa gert í stjórn stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnunin mælti með þessu en stjórn stofnunarinnar hafði áður það hlutverk sem nú er falið ráðgjafarnefndinni og telja bæði starfsmenn og yfirstjórn stofnunarinnar að það hafi reynst mjög vel. Nefndin leggur því til að gera breytingartillögu þar sem fjölgað verði í ráðgjafarnefndinni um einn þannig að í stað þess að hún verði skipuð sex fulltrúum bætist við sjöundi fulltrúinn sem tilnefndur verði af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Hvað varðar sérstaka samstarfsnefnd ráðuneyta er lagt til að hún eigi að fjalla um mótun langtímastefnu fyrir fiskstofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins. Lagt er til að sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar skipi nefndina. Tveir fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar og tveir samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að við mótun slíkrar stefnu sé nauðsynlegt að aðilar í atvinnugreininni taki virkan þátt í því starfi svo sem verið hefur og hefur gefist vel. Nefndin telur því rétt að leggja til breytingu á greininni í þá veru að samstarfsnefnd ráðuneytanna skuli ekki einungis leita faglegs stuðnings Hafrannsóknastofnunarinnar við mótun langtímanýtingarstefnu heldur einnig gangast fyrir skipulegu samráði við fulltrúa atvinnugreinarinnar og leggur því til þá viðbót við þessa grein.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um flutning dýraverndarmála frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að við veltum þessu svolítið fyrir okkur og ég held að það sé fyrst og síðast vegna nafnanna á stofnununum og eftir að hafa ráðgast við forstjóra Matvælastofnunar vorum við sannfærð um að hún ætti ekki síður að hugsa um heilbrigði og velferð dýra en matvælaöryggi og neytendamál, þannig að við féllum frá hugmyndum um að gera einhverjar breytingar á því.

Síðan kom fram tillaga um aðallega tvær efnislegar breytingar, ef svo má segja, á þessu frumvarpi, en breytingartillagan er hins vegar mjög löng og í 11 greinum, og það stafar af því að það er lagt til að breytt verði nafninu á Hafrannsóknastofnuninni, eins og hún heitir nú, í Hafrannsóknastofnun og því þarf að breyta ýmsum lögum og breytingartillagan gengur sem sagt út á það.

Síðan kom fram í nefndinni að ekki væri mjög skýrt eftir breytinguna á nöfnum ráðuneyta hvað heyrði undir hvert ráðuneyti en mér sýnist það vera nokkuð skýrt í frumvarpinu, en við leggjum til að forsætisráðuneyti gangist fyrir því að skýra það á heimasíðu ráðuneytisins eða Stjórnarráðsins og ég held að jafnvel sé búið að framkvæma það.