141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Nú liggur fyrir, og hefur hangið eins og sverð yfir höfði Ríkisendurskoðunar, vantraustsyfirlýsing forustu fjárlaganefndar á Ríkisendurskoðun. Í gær birtist á heimasíðu Ríkisendurskoðunar frétt þess efnis að vinnubrögð stofnunarinnar eru í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla. Þetta er á grunni niðurstöðu sem fengin var eftir að sérfræðingar frá ríkisendurskoðunum Hollands, Noregs og Svíþjóðar unnu úttekt í samræmi við vinnubrögð sem tengjast mati á störfum ríkisendurskoðunar þessara landa. Það er staðfest að afköst stofnunarinnar séu mikil og góð og að hún standist alþjóðlega viðurkennda staðla, Ríkisendurskoðun Íslands starfi af krafti og metnaði og skýrslur séu Alþingi til mikils gagns og ávinnings.

Þessi niðurstaða veltir upp þeirri spurningu hvernig forusta fjárlaganefndar og raunar forusta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar bregðist við þessum tíðindum. Hv. þingmenn Björn Valur Gíslason og Valgerður Bjarnadóttir lýstu yfir vantrausti á þessa stofnun. Má ætla það í kjölfar þessara frétta að annaðhvort dugi þeim að lýsa yfir vantrausti á ríkisendurskoðunum Hollands, Noregs og Svíþjóðar eða ætli hv. þingmenn Björn Valur Gíslason og Valgerður Bjarnadóttir láti duga að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir votti störf Björns Vals Gíslasonar og hv. þm. Björn Valur Gíslason votti störf hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Skyldi það verða látið duga í framhaldi af þessu eða ætli forusta hv. fjárlaganefndar taki sig nú til og efni til samstarfs og samráðs við þá stofnun sem hefur fengið (Forseti hringir.) alþjóðlega vottun á sín störf?