141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa lýst áhyggjum yfir hækkunum sem munu hljótast af ákvörðunum ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem munu styðja fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvörpin. Ekki síst hef ég áhyggjur af því sem kom fram áðan hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um lækningatækin, um að bleiur, hjólastólar og smokkar séu dæmi um vörur sem munu hækka í veðri.

Það hefur verið baráttumál framsóknarmanna mjög lengi að gera breytingar á virðisauka varðandi til dæmis smokka til að þessi vara verði ódýrari, og þá meira notuð væntanlega til hagsbóta fyrir heilsu landsmanna. Því miður virðist ríkisstjórnin þarna eins og annars staðar gera fólki erfiðara fyrir. Það sem stendur þó upp úr eftir þessar síðustu vikur í þinginu er að traust og trúnaður milli ríkisstjórnarflokkanna, milli Samfylkingar og Vinstri grænna við helstu samtök landsins, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og jafnvel þjóðkirkjuna, er komið að frostmörkum.

Þar af leiðandi er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn getur ekki setið lengur. Ríkisstjórnin þarf að fara frá fyrir kosningar. Forsætisráðherra þarf að taka forvera sína sér fyrirmyndir og segja af sér vegna þess að traust milli aðila vinnumarkaðarins og við helstu stofnanir í landinu er brostið.

Við sjáum líka að það er mikið metnaðarleysi í fjárlagafrumvarpinu núna fyrir 3. umr. að koma með nægilega mikla fjármuni til þeirra stofnana sem við þurfum helst á að halda, eins og til lögreglunnar. Það er að sjálfsögðu einn hængur þar á, það er erfitt að koma fram með hækkanir þegar ekki er neinn metnaður til að auka tekjur. Það er það sem þarf að gera hér og það verður stóra málið næstu árin, að auka tekjur í samfélaginu, búa til störf sem skila ríkissjóði meiri skatttekjum, ekki að pína þá fáu sem eru nú að greiða skatta.