141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í gær lagði meiri hluti utanríkismálanefndar til að Íslendingar gerðu hlé á viðræðum við Evrópusambandið og hæfu þær ekki aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er tillaga sem hefur verið til umræðu um alllangt skeið. Ég skrifaði grein um þetta um mitt síðasta ár, þá í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt um málið. Þrátt fyrir tilraunir í þá veru hafa nokkrir, ekki hvað síst hv. stjórnarliðar Samfylkingarinnar, brugðist við þessu á mjög sérkennilegan hátt, þ.e. með því að halda því fram að það sé alveg ómögulegt að ætlast til þess af fólki að það kjósi um hvort það vilji áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið vegna þess að það hafi ekki nægar upplýsingar, að menn séu þá að taka óupplýsta afstöðu til Evrópusambandsins, bara viti líklega ekki hvað Evrópusambandið er ef það er ekki til staðar samningur, eins og það er kallað, ef það er ekki samningur á borðinu.

Það sem er undarlegt við það að menn skuli enn halda slíku fram er að nú hefur ítrekað komið fram af hálfu Evrópusambandsins að það eigi ekki einu sinni að tala um samningaviðræður, það sé varasamt að nota það orðalag vegna þess að það gefi til kynna að menn séu að semja um eitthvað. Viðræður við Evrópusambandið snúist ekki um að semja, þær snúist um það með hvaða hætti umsóknarríkið ætli að aðlaga sig reglum sambandsins. Þetta kemur meira að segja fram í sérstökum leiðarvísi sem stækkunarstjóri Evrópusambandsins gefur út og bæði Olli Rehn, fyrrverandi stækkunarstjóri, og núverandi stækkunarstjóri, Stefan Füle, hafa skrifað. Þar er sérstaklega tekið fram að ekki eigi sér stað neinar samningaviðræður.

Um hvaða samning eru menn að tala? Þetta er enginn samningur. Þetta er áætlun um aðlögun, þ.e. umsóknarríkið samþykkir með hvaða hætti það ætlar að aðlaga sig. Er sem sagt verið að segja að menn geti ekki tekið upplýsta afstöðu til Evrópusambandsins nema fyrir liggi (Forseti hringir.) með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að aðlaga sig sambandinu? Vita menn ekki hvað Evrópusambandið er, virðulegur forseti?