141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hinn 13. október sl. birti Íslandsbanki plagg sitt og bendir þar á að frá áramótum hefur heildargjaldeyrisforði þjóðarinnar minnkað um helming og stendur nú í tæpum 500 milljörðum. Þetta kom fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þetta er athyglisvert því að þar var líka bent á að í lögunum sem sett voru í mars, þar sem undanþágur þrotabúa gömlu bankanna voru afnumdar, var kveðið á um að Seðlabankinn skyldi svo fljótt sem við yrði komið setja reglur um hvernig undanþágum fyrir þrotabúin vegna gjaldeyriseigna yrði háttað.

Eftir því sem ég best veit hafa þessar reglur ekki enn litið dagsins ljós og hefur nú komið í ljós að þrotabú gömlu bankanna hafa verið að sjúga gjaldeyri út úr Seðlabankanum. Þeir sækja í það af því að gjaldeyririnn er mjög verðmætur eins og allir vita. Þær eru því merkilegar þær fréttir sem berast og birtast í Fréttablaðinu í dag að þrotabú Glitnis hafi farið fram á það við Seðlabanka Íslands að Glitnir mundi gefa út hin svokölluðu gullnu hlutabréf sem yrðu gefin út til Seðlabankans og þá mundi Seðlabankinn fá neitunarvald gagnvart breytingum og samþykktum þess eignasýslufélags sem yrði til við nauðasamningaferli Glitnis.

Það eru mjög merkilegar fréttir að farið skuli fram á þetta við Seðlabanka Íslands, sér í lagi þegar til þess er litið að flestir mæla með því að þessi þrotabú fari beint í gjaldþrot en ekki í nauðasamninga til að tryggja íslenskan þjóðarhag. Því verð ég að segja: Það er kominn tími til að Seðlabanki Íslands leysi frá skjóðunni. Hvað er raunverulega að frétta af þeim reglum sem Seðlabankinn ætlaði að setja sér varðandi þessi mál?