141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Okkur er oft legið á hálsi hér í þessum sal fyrir það að gera ekkert annað en að rífast og karpa og að við tölum ekki nógu mikið um það sem vel er gert. Ég ætla þá að reyna að gera bragarbót á því í þessari stuttu ræðu.

Í allt haust hefur staða Fjölbrautaskóla Suðurnesja verið áhyggjuefni. Við heyrðum fréttir af því í byrjun nóvember að í það stefndi að skólinn þyrfti að fara í uppsagnir og vísa frá tugum nemenda fyrir komandi vorönn. Þetta var sérstaklega alvarlegt í ljósi atvinnuástands og þess ástands sem við þekkjum á Suðurnesjum og höfum við mörg hver haft af þessu gríðarlegar áhyggjur. Við höfum verið að vinna í þessu á haustdögum og ég verð að láta þess getið og hrósa sérstaklega aðkomu hæstv. menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur. Í gær stóð hún við stóru orðin. Hún kláraði þetta mál og tryggði skólanum fjárveitingu sem er sambærileg við það sem aðrir skólar fá og tryggði stöðu skólans þannig að ekki þarf að koma til þess að vísa nemendum frá nú fyrir vorönnina.

Ég er afskaplega ánægð með þessi málalok og ég vil þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir að höggva á þennan hnút og beita sér með þeim hætti sem hún gerði í þessu máli. Ég vona svo sannarlega að þetta verði til þess að efla skólastarfið í Fjölbrautaskólanum og tryggja þeim nemendum sem þarna um ræðir farsælan skólaferil á komandi mánuðum.