141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég efast um að ég hafi verið sú eina sem stoppaði við frétt í Fréttablaðinu í morgun um það að þrotabú Glitnis hefur formlega óskað eftir samþykki Seðlabanka Íslands eins og þegar hefur komið fram undir þessum lið um störf þingsins.

Ég hef verulegar áhyggjur hvað þetta varðar af því að við séum að stefna í sama ferli og var með uppgjörið á milli gömlu og nýju bankanna. Ég hef áhyggjur af því að þetta komi ekki inn í Alþingi og að við munum ekki fá tækifæri til að fjalla um þetta og taka afstöðu til þess samningaferlis sem er í gangi á milli slitastjórnanna og Seðlabanka Íslands um það hvort best sé fyrir þjóðarbúið að ganga frá nauðasamningum um þrotabúin hjá Glitni og Kaupþingi eða hvort best sé að fara með þessi félög í gjaldþrot. Og síðan í framhaldinu hvernig megi gera ráð fyrir því að hægt verði að gera upp við kröfuhafana.

Það kemur líka fram að viðræður eru í gangi, að frumkvæði fjármálaráðuneytisins og nýja Landsbankans, um að endursemja um 300 milljarða kr. skuldabréfið sem var gefið út í tengslum við uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Ég held að það sýni kannski og sanni einna best hversu mikilvægt er að þessi umræða komi hingað inn í þingið.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar og efnahags- og viðskiptanefnd sjálf hefur af veikum mætti verið að reyna að afla upplýsinga og fylgjast með því sem er í gangi. En ég tel að þetta sé svo stórt mál, sé svo mikilvægt mál og varði svo gífurlega hagsmuni fyrir íslenska þjóðarbúið, (Forseti hringir.) að það sé löngu tímabært að forustumenn stjórnmálaflokkanna setjist niður og ræði hvernig allir stjórnmálaflokkar (Forseti hringir.) geti komið að þessu. Þetta mun marka (Forseti hringir.) stefnu og farveg og raunar segja til um hvernig hlutum verður háttað á Íslandi um ókomna framtíð.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörkin sem eru 2 mínútur.)