141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom hingað og lýsti yfir áhyggjum sínum af því ástandi sem væri í þinginu. Það hvarflaði að mér í smástund að hún hefði jafnvel áhyggjur af því að hér vilji tveir flokkar ekki horfast í augu við að þeir hafi ekki meiri hluta í þinginu og hafi því haldið uppi málþófi svo vikum skiptir. (GBS: Bull.) Nei, nei, nei, það var ekki svo. Þar skjátlaðist mér. Það er nefnilega frumvarp til laga um breytingar á lögum um lækningatæki sem virðist vera helsta birtingarmynd þeirra óganga sem Alþingi Íslendinga er í.

Markmið frumvarpsins er að styrkja og efla eftirlit með lækningatækjum á markaði með það að leiðarljósi að öryggi sjúklinga og annarra notenda lækningatækja sé sem best tryggt.

Nú er það svo að í 7. gr. frumvarpsins eru ákveðnir tollaflokkar og við munum ganga til atkvæða um frumvarpið á eftir. En ég, sem formaður nefndarinnar, tel eðlilegt, í ljósi málefnalegrar afstöðu þingmannsins í gær sem ég vitnaði til, að nefndin taki málið aftur til sín og fari yfir þessa tollaflokka. Þannig tel ég eðlilegt að Alþingi starfi; á siðsamlegum og málefnalegum nótum. Ég vona að vakning alþingismanna um að hér sé unnið sómasamlega dragi úr því þrasi sem við höfum því miður orðið vitni að síðustu vikur.