141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í ljósi síðustu orða hv. síðasta ræðumanns virðist mér stundum helsta framlag stjórnarþingmanna í ræðustóli vera það að vilja skerða málfrelsi allra þingmanna, sem er helgasti réttur okkar allra sem hér sitjum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. En ég kveð mér hljóðs til að minna á löggæsluáætlun sem samþykkt var í vor undir forustu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Við erum nú þegar byrjuð að vinna eftir henni. Það er eftirtektarvert og það hefur vakið athygli þeirra sem sitja á fundum að við erum þar, stjórnmálamenn, embættismenn, fulltrúar lögreglunnar frá Landssambandi lögreglumanna, að vinna að því að móta löggæsluáætlun og koma fram með tillögur um hvernig hægt er að efla löggæsluna. Við munum vonandi skila niðurstöðu sem allra fyrst þannig að hún megi nýtast til lengri tíma fyrir okkur öll.

Það sem vekur mig til umhugsunar eru fjárlögin og þær tillögur sem liggja fyrir um 200 millj. kr. sem eiga að koma til móts við vanda lögreglunnar. Þær 200 millj. eru einungis hugsaðar til að koma til móts við brýnasta vanda, og varla það, lögreglunnar um allt land. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvernig hægt er að setja fram svona fjárlög þegar við komum með tillögur um það hvernig við ætlum að efla löggæsluna. Menn sem sitja þessa fundi sjá fyrir sér að það mun kosta talsvert mikið að efla löggæsluna. Mannaflaþörfin er mikil til að löggæslan geti sinnt þeim verkum sem henni er falið lögum samkvæmt og mýmargir lagabálkar fela löggæslunni ákveðið hlutverk.

Ég kem hingað til að lýsa áhyggjum mínum varðandi framlögin til lögreglunnar á milli 2. og 3. umr. (Forseti hringir.) Þessar 200 millj. eru eingöngu til að koma til móts við brýnasta vanda lögreglunnar en ekki til að efla hana til lengri tíma litið.