141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[11:10]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð o.fl. sem felur í sér að sett verði á fót Miðstöð íslenskra bókmennta og að í leiðinni verði aukin áhersla á kynningu á íslenskum bókmenntum á erlendri grundu. Segja má að frumvarpið sé til komið til að fylgja eftir því merka starfi sem unnið var í tengslum við og á bókamessunni í Frankfurt þar sem íslenskar bókmenntir fengu þá mestu kynningu á erlendri grundu sem um getur á seinni tímum.

Það hefur haft þau áhrif að tvöfalt fleiri bækur eru nú þýddar eftir íslenska höfunda á erlendar tungur í ár en árið 2008. Er það mikið fagnaðarefni og stefnir í þreföldun þýddra bóka eftir íslenska höfunda innan þriggja ára frá því sem var árið 2008, 230 bækur eftir íslenska höfunda komu út á þýska málsvæðinu í kjölfar og í tengslum við bókamessuna.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd leggur til bráðabirgðaákvæði við frumvarpið sem kveður á um að fram fari heildstæð úttekt á starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu með það að markmiði að auka rafbókavæðingu, stafrænan aðgang almennings að höfundarréttarvörðu efni og sérstaklega að efla námsgagnaútgáfu hér á landi sem ekki er vanþörf á. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir afar góða vinnu og góða samstöðu um frumvarpið.