141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

vegabréf.

479. mál
[11:21]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er lagt til að gildistími vegabréfa verði færður til þess sem áður var, sem sagt til tíu ára fyrir fullorðna einstaklinga.

Gildistími vegabréfa var styttur í fimm ár vegna breytinga á lífkennum við útgáfu þeirra hér á landi þar sem örflögur voru ekki taldar duga lengur en í fimm ár og ekki var talið óhætt að vegabréfin giltu í tíu ár ef þær dygðu ekki til. Síðan hefur komið í ljós að líftími þeirra er mun lengri. Í frumvarpinu er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2013 en við leggjum til að þau taki gildi 1. mars vegna þess að grunnbreytingar á útgáfu vegabréfa krefjast skjala- og tæknivinnslu hérlendis sem og til að nægur tími gefist til að kynna erlendum landamærastöðvum breyttan gildistíma vegabréfa. Nefndin leggur því til að gildistíma laganna verði frestað til 1. mars en annað samþykkt. Þverpólitísk samstaða var um það í nefndinni að þetta væru mjög jákvæðar breytingar frá því sem áður var.