141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

vegabréf.

479. mál
[11:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég kem ekki hingað upp af því að framsóknarmenn séu mótfallnir þessu máli. Við erum mjög samþykk því. En ég kem hingað upp til að draga það fram hvað þetta er lítið og fallegt mál en merkilegt í sjálfu sér. Eftir árásina á tvíburaturnana var ákveðið að taka upp örflögur í vegabréf sem giltu áður í tíu ár fyrir fullorðna og fimm ár fyrir börn, enda breytist allt andlit barna hraðar en fullorðinna. Þetta var allt fært niður í fimm ár því að menn héldu að þessi tækni væri ekki nógu góð.

Þetta mál sýnir hvað alþjóðasamfélagið getur unnið hratt og tekið upp tækninýjungar hratt, jafnvel svo hratt að menn vita ekki alveg hvað verður. Síðan kemur það í ljós að þessar örflögur standa sig betur en menn áætluðu þannig að nú erum við að lengja tímann aftur upp í tíu ár. Nú þarf ekki að endurnýja vegabréf nema á tíu ára fresti fyrir fullorðna og fimm ára fresti fyrir börn. Þetta er mjög jákvætt mál og gott en sýnir hvað tækninni fleygir hratt fram.