141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[11:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í þessu máli má segja að verið sé að blanda saman tveimur hlutum.

Annars vegar er það ársframlenging á heimild til að halda tölu héraðsdómara óbreyttri í 43. Það má auðvitað velta fyrir sér hver þörfin er nákvæmlega í því sambandi en ég gerði engar athugasemdir við það, ekki frekar en hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Hitt atriðið sem fjallað er um í frumvarpinu eru mjög rýmkaðar heimildir til að skipa varadómara við Hæstarétt. Ég fagna því sem komið hefur fram af hálfu nefndarmanna í allsherjarnefnd, að málið verði tekið til skoðunar að nýju milli 2. og 3. umr. í því skyni að greina hver þörfin er sem verið er að bregðast við. Eins tel ég að það sé rétt að skoða, reynist þörfin vera fyrir hendi, að fara aðrar leiðir því að hér er verið að veita afskaplega víðtæka heimild (Forseti hringir.) til skipunar varadómara, ekki bara á næsta ári heldur í fjögur ár, rúmlega kjörtímabil Alþingis. (Forseti hringir.) Það er dálítið langur tími.