141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[11:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál er nokkuð stórt. Það er frumvarp til laga um skatt í felubúningi. Verið er að búa til nýjan skattstofn til að standa undir tilteknu eftirliti sem felur í sér ráðningu fjögurra nýrra starfsmanna við starfsstöð Lyfjastofnunar í Reykjavík. Það er líka í þeim skilningi ákveðin byggðastefna.

Í rauninni er ekki um að ræða þjónustugjald vegna þess að það er ekki eins og verið sé að búa til gjald sem standa eigi undir tiltekinni þjónustu heldur er hér um að ræða skattlagningu. Þetta er fyrst og fremst skattlagning á sjúkrastofnanir sem ríkið rekur og er þess vegna tilfærsla á milli vasa. Þetta er líka fráhvarf frá þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar um að ríkistekjur séu ekki markaðar til reksturs tiltekinna stofnana eða verkefna og viðfangsefna og á það bendir m.a. fjármálaráðuneytið.

Við erum ekki á móti því að haft sé uppi eðlilegt eftirlit (Forseti hringir.) en hins vegar er hér seilst allt of langt og í rauninni einfaldlega verið að búa til nýjan skattstofn.