141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[11:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Rekstur umboðsmanns skuldara fór um það bil 25% umfram þær fjárheimildir sem gildandi fjárlög kveða á um. Nú er verið að bregðast við því með því að setja á viðbótargjald fyrir næsta ár til að greiða þá skuld sem safnaðist upp á rekstri yfirstandandi árs.

Um miðjan september var lagt fram fjárlagafrumvarp. Þar var gert ráð fyrir að umfang þeirrar stofnunar mundi mjög minnka vegna þess að menn væru að ná utan um viðfangsefni sitt. Þá var lagt til að rekstur stofnunarinnar yrði skorinn niður um 170 millj. kr. Nú, þremur mánuðum síðar, er komið fram með tillögu um að heimta til baka og auka í þær 170 millj. kr. sem menn töldu óhætt að skera niður um miðjan september. Það sem við erum að sjá er að í raun og veru er ríkisstjórnin fjarri því að vera búin að ná utan um þetta mikla verkefni, sem er að takast á við skuldavanda heimilanna. Skuldalækkun heimilanna stafar fyrst og fremst af því að skuldir hafa lækkað vegna dóma um gengisbundin lán. Það skýrir 75% af skuldalækkun heimilanna, ekki ráðstafanir ríkisstjórnarinnar.