141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[11:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru auðvitað ákveðin vonbrigði að ekki hefur gengið hraðar að sinna þeim verkefnum sem umboðsmanni skuldara hafa verið falin. Við þurfum samt að gæta að því að þetta eru flókin verkefni og það verður auðvitað að vera vilji af hálfu þeirra kröfuhafa sem þar setjast saman að borði til að reyna að greiða úr hverju máli fyrir sig til að málin gangi hratt og vel. Vil ég einfaldlega hvetja þá aðila sem þar sitja á fundum til að hraða sér í þetta vegna þess að það eru þeir sjálfir sem þurfa að greiða þetta gjald og bera þá ábyrgð á því að málin gangi hratt fyrir sig.

Hins vegar verðum við að horfast í augu við það að þær leiðir sem við völdum í þinginu til að takast á við skuldavanda heimilanna eru of flóknar og taka of langan tíma. Fólk er enn að bíða eftir úrlausn sinna mála og biðtíminn er verstur. Ég tel að við sem erum að fara inn í kosningavetur — það eru kosningar í vor og við höfum ekki enn náð okkur saman um með hvaða hætti við ætlum að takast á við það að koma til móts við skuldsett heimili — þurfum nú að fara að taka okkur tak og ég hvet til þess að það verði fyrsta mál á dagskrá að loknu þinghléi.