141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[12:15]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Hæstv. forseti. Ég er í sömu sporum og hv. þm. Pétur H. Blöndal og bið forseta að anda aðeins með nefinu í þessari atkvæðagreiðslu þannig að fólk komist að til að tjá sig um hana. Um er að ræða flókið kerfi, landbúnaðarkerfið, og hér eru smáplástursbreytingar á kerfi sem að mínu mati hefur fyrir löngu sligast undan eigin þunga og þarf að fara í gagngera uppstokkun á.

Það var athyglisvert að margir þeir sem komu fyrir nefndina lögðu til að frumvörp um landbúnaðarmál á Íslandi yrðu skrifuð á íslensku því að bæði sé kerfið og orðalagið í löggjöfinni óskiljanlegt.

Það þarf að einfalda þetta kerfi, opna það og leyfa innflutning á landbúnaðarvörum þannig að Íslendingar standi ekki skör lægra en nágrannaþjóðir. Það er hægt að gera með því að hafa skýr fyrirmæli um upprunamerkingu matvæla í matvörubúðum svo Íslendingar hafi þá val en séu ekki neyddir til að borða eitthvað sem Bændasamtökin skipa þeim að borða. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir hv. þingmenn á að greiða atkvæði, helst áður en þeir gera grein fyrir atkvæði sínu.)