141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[12:36]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki minn stíll að varpa sök á nefndarritara þingsins. Ég er alveg eindregið þeirrar skoðunar að ef okkur verða á mistök er það þingmannanna að axla hana og ég axla ábyrgð á því í þessu máli að hafa ekki gengið eftir því á nefndarfundi þegar málið var afgreitt þaðan hvers vegna umsagnir voru ekki komnar inn. Það er svo einfalt.

Ég ætla ekki að lýsa yfir afstöðu minni til þessa máls hér og nú vegna þess að það skortir upplýsingar. Hv. þm. Árni Johnsen kom að nokkrum atriðum, ég vil nefna eitt í viðbót. Breyta á reglum um framlag til grunnskóla út frá tekjuhlið sveitarfélaganna, en ekki hefur verið skoðuð gjaldahlið þessara sveitarfélaga. Smærri sveitarfélög, eins og til dæmis Skorradalshreppur, hafa mikil útgjöld, þannig að horfa verður í báðar áttir, ekki má eingöngu meta það út frá tekjum. Smærri sveitarfélögum veitir ekki af miklum tekjum, t.d. í skipulagsmálum, byggingarmálum og öðru slíku (Forseti hringir.) þar sem margir sumarbústaðir eru. Ég geri kröfu til þess að málið verði skoðað faglega og efnislega (Forseti hringir.) eins og okkur er tamt í öllum nefndum. Málið er ekki tækt til afgreiðslu fyrir jól.