141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[12:37]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég lít svo á að varðandi allt það sem gerst hefur í þessu máli, hvernig svo sem mistökin verða innan nefndarinnar, beri ég sem formaður nefndarinnar ábyrgð á því. Hér er ekki verið að reyna að vísa ábyrgð neitt annað, heldur var einungis verið að reyna að skýra málið. Ég lít svo á að ábyrgðin sé mín, hvernig sem mistökin komu til og ég hef beðist afsökunar á þeim.

Það breytir hins vegar ekki því að búið er að fara yfir málið mjög lengi og ítarlega á vettvangi sveitarfélaganna, á mörgum samráðsfundum um þetta efni milli ráðuneytis og sveitarfélaga o.s.frv. Lykilspurningin sem um ræðir er, eins og ég sagði áður, tiltölulega einföld og reyndar mjög einföld, prinsippið er einfalt og búið að vera mjög lengi í umræðunni. En við munum að sjálfsögðu, eins og ég ítrekaði áðan, taka málið til frekari skoðunar. Við gerðum það strax í morgun og munum gera það áfram í kvöldverðarhléi og (Forseti hringir.) koma þá aftur fyrir þingnefnd.