141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég skil ekki hvernig launamunur kynjanna getur aukist ef leið jöfnuðar er valin í einhverju verki. Ég skil ekki hvernig ríkisstjórnin getur mismunað íbúum þessa lands eftir því hvar þeir búa með tilliti til húshitunarkostnaðar. Ég fæ þetta ekki undir neinum kringumstæðum til að samræmast einhverjum hugmyndum um að áherslur ríkisstjórnarinnar séu á leið jöfnuðar. Það má örugglega finna dæmi annars staðar en í mínum huga er launamunur kynjanna afskaplega illur og það er bara ein leið til þess að sporna gegn honum. Það er að segja upp samningum á slíkum vinnustöðum og afnema sporslur, yfirborganir og jafna þar með launagrunninn sem allt byggir á. Ég held bara að núverandi ríkisstjórn hafi ekki treyst sér til þess verks. Þetta er ekkert flókið. Það er mikið verk og erfitt og menn hafa ekki treyst sér til þess.

Varðandi sprotadæmið og allt það. Ég vara við því að tala eins og ekkert nýtt hafi gerst í íslensku atvinnulífi. Það er fullt á öllum sviðum, menningarmálum, iðnaði og ferðaþjónustu t.d. Þar er gríðarlegur vöxtur og flott frumkvæði sem einstaklingar og fyrirtæki hafa sýnt. Hvernig eru menn að ganga gegn því núna? Algerlega í andstöðu við þá vaxtarsprota sem hafa skotið rótum og ég skora á hv. þingmann að styðja þá viðleitni sem berst gegn því að brjóta niður það frumkvæði sem þar hefur skapast.

En ég spyr hv. þingmann rétt í lokin einnar spurningar: Hvernig í ósköpunum getur hann forsvarað og varið það svar sem kom frá fjármálaráðuneytinu við erindi fjórðungshluta fjárlaganefndar um aðgengi að upplýsingum? Hvernig í ósköpunum treystir hv. þingmaður (Forseti hringir.) sér til að verja það hvernig stjórnarandstöðunni er meinaður aðgangur að gögnum?