141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 til 3. umr. Það verð ég að segja að stundum setur að manni hroll við lestur þess. Það var eiginlega dálítið skondið að hlusta á hv. 7. þm. Norðaust. tala um jöfnuð norrænu velferðarstjórnarinnar sem meðal annars setti á svokallaðan auðlegðarskatt á fólkið í landinu, (SER: Og sælu.) teljandi sér trú um að þá væri verið að setja skatt á hátekjufólk í landinu. Svo hefur komið í ljós að þeir sem verst fara út úr auðlegðarskatti eru eldri borgarar sem hafa kannski ekki miklar tekjur en búa í skuldlausum húsum og dýrum fasteignum. Jöfnuðurinn og nálgunin gagnvart íbúum landsins hefur ekki verið sem skyldi þrátt fyrir mörg fögur fyrirheit og mörg falleg orð þar að lútandi. Við það verður norræn velferðarstjórn undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur að horfast í augu við.

Það er ekki þar með sagt að allt sem ríkisstjórnin hefur gert á þessum fjórum árum í því erfiða árferði sem við höfum búið við vegna efnahagshruns hafi verið slæmt. Það er víðs fjarri. Margt hefur verið af hinu góða og skilað fólki árangri og það er vel.

Mig langar í upphafi að ræða verklag og vinnubrögð í hv. fjárlaganefnd. Ég hef átt þess kost að sitja sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og aðalmaður í fjárlaganefnd frá því í haust og tekið þátt í þeirri vinnu sem hefur þar verið unnin vegna fjáraukalaga og fjárlaga fyrir árið 2013. Ég hef setið í heilbrigðisnefnd, í velferðarnefnd, ég hef setið í menntamálanefnd og í allsherjar-og menntamálanefnd en ég verð að segja að vinnulag í fjárlaganefnd kom mér verulega á óvart.

Ég sagði á mínum fyrstu dögum á þingi einhvern tíma á kjörtímabilinu 2007, og sat þá í stjórnarmeirihluta, að mér fyndist Alþingi Íslendinga vera eins og afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Okkur væri gert að segja annaðhvort já eða nei og oftar en ekki já. En það verð ég að segja að mér þykir meiri hluti fjárlaganefndar vinna frekar sem stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið en afgreiðsluaðili vegna þess að lítið af því sem framkvæmdarvaldið leggur til fær almenna umræðu og litlu er breytt.

Málatilbúnaðurinn er með þeim hætti að tillögur koma inn, frumvarpið kemur inn í heild sinni og kallaðir eru til aðilar til umsagnar um fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í september 2012. Ýmsar athugasemdir koma fram og ýmsar beiðnir. Síðan kemur breytingartillaga framkvæmdarvaldsins á milli 1. og 2. umr. sem tekin er hrá og við henni sagt já. Samhliða koma breytingartillögur frá hv. Alþingi, þær eru settar til hliðar og ákvarðanir þar að lútandi ekki teknar fyrr en á milli 2. og 3. umr.

Nú erum við að fjalla um fjárlögin til 3. umr. og enn koma fram breytingartillögur frá framkvæmdarvaldi og meiri hluta nefndarinnar, en tillögur hv. Alþingis frá forseta Alþingis, sem forsætisnefnd stendur að sameiginlega að baki forseta Alþingis, ná ekki fram að ganga.

Hér á Alþingisreitnum er stórt og mikið hús sem nefnist Skjaldbreið og stendur á milli Blöndahlshúss og Skúlahúss. Það er þinginu ekki til sóma hvernig það lítur út. Óskað hefur verið eftir 60 millj. kr. fjárveitingu til að fara í það verkefni að lagfæra framhliðina í það minnsta og gera húsið helt. Við því getur meiri hluti fjárlaganefndar ekki orðið og leggur ekki fram tillögu þar að lútandi. Mér þykir það ótrúlegt miðað við hvernig margir innan stjórnarliðsins hafa áratugum talað um gömul hús, það eigi að vernda gömul hús og leggja fé í húsafriðunarsjóð til að hægt sé að bjarga þeim og halda við gömlum húsum.

Það eru settar tugir milljóna í húsafriðunarsjóð og það er vel. Það ætti kannski að vera leið forseta þingsins að sækja um fjármuni í húsafriðunarsjóð til að gera upp Skjaldbreið. En þetta sama fólk sem þannig vinnur hafnar beiðni forseta þingsins með forsætisnefnd að baki sér um 60 millj. kr. til að hægt sé að fara í að lagfæra og varðveita Skjaldbreið. Þetta er eitt af því sem mér þykir með ólíkindum og vert að nefna hér.

Það er líka vart boðlegt að við sem sitjum í fjárlaganefnd, hvort sem er í meiri hluta eða minni hluta, fáum ekki allar upplýsingar. Ég þekki ekki hvort meiri hlutanum eru ljósir allir þeir samningar og allt sem liggur að baki einstaka þáttum í þessu frumvarpi, en við í minni hlutanum, fulltrúar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, höfum kallað eftir upplýsingum en ekki fengið. Ég get tekið mörg dæmi um að við höfum beðið um upplýsingar og bakgrunnsgögn til að geta uppfyllt þá skyldu okkar að fjalla um fjárlagafrumvarpið og geta tekið ákvarðanir sem byggja á því að maður hafi í höndunum einhverjar upplýsingar, ekki bara tölu og frásagnir um að hlutirnir eigi að vera svona eða hinsegin.

Hv. formaður fjárlaganefndar hefur margoft sagt að hann skuli kalla eftir þessum upplýsingum og þær komi innan tíðar en það hefur ekkert gerst í þeim efnum. Og nú erum við að afgreiða fjárlögin við 3. umr. Þau verða væntanlega tekin til atkvæðagreiðslu á morgun eða næstu daga en enn þá hafa minni hlutanum ekki borist þau bakgrunnsgögn sem liggja að baki því sem ætlast er til að maður taki upplýsta afstöðu með eða móti. Þetta eru vinnubrögð sem eru gersamlega óásættanleg.

Það keyrir um algerlega um þverbak þegar hæstv. fjármálaráðherra leyfir sér að virða þingsköp að vettugi og senda það bréf sem barst til fjárlaganefndarfulltrúa eftir að óskað hafði verið eftir upplýsingum vegna fjáraukalaga þann 6. nóvember. Það berst bréf þann 10. desember sem svar við beiðninni 6. nóvember og í því kemur fram að þar sem fjáraukalögin hafi verið afgreidd sé engin ástæða til að verða við þeim upplýsingum sem óskað hafði verið eftir. Það er ótrúlegur hroki af hálfu fjármálaráðherra í þessu bréfi, virðingarleysi gagnvart þeim fulltrúum sem sitja í fjárlaganefnd og virðingarleysi gagnvart þeirri vinnu sem þar á að fara fram.

Hér hafa stjórnarþingmenn talað um að hátt í 100 dagar hafi farið í að ræða fjárlögin. Magn er annað en gæði, það er svo einfalt. Sú umræða sem farið hefur fram á þessum 100 dögum hefur kannski ekki alltaf verið jafnmikil að gæðum og fjöldi daganna segir til um. Ég verð að ítreka enn og aftur að það er sérkennilegt að sitja sem fulltrúi í fjárlaganefnd, eiga að fjalla um fjárlög ríkisins fyrir árið 2013 og taka afstöðu til þeirra, þegar framkvæmdarvaldið hafnar því, neitar einfaldlega að afhenda þær upplýsingar og þau bakgrunnsgögn sem nefndarmenn óska eftir.

Á fjárlaganefndarfundi, um það leyti sem fjárlagafrumvarpið var tekið út til 3. umr., var greint frá breytingum varðandi byggingu Landspítalans – háskólasjúkrahúss. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar stendur, með leyfi forseta:

„Í sameiginlegu minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra sem ríkisstjórnin samþykkti þann 30. nóvember er lagt til að um hefðbundna opinbera framkvæmd verði að ræða.“

Fjárlaganefnd og síðan 63 alþingismönnum er ætlað að taka ákvörðun hvað þetta áhrærir, en þetta samkomulag sem undirritað er þann 30. nóvember, þetta minnisblað eða hvað menn vilja kalla það — þetta er í það minnsta ákvörðun ríkisstjórnarinnar — berst ekki til fjárlaganefndar til að hún geti vegið og metið hvað liggi að baki þeirri ákvörðun og hvort hún sé skynsamleg fyrir hönd ríkissjóðs. Við höfum ekkert í höndunum til að taka þessar ákvarðanir og það er verulega dapurlegt að verða vitni að slíkum vinnubrögðum.

Svo er annað að hér tala menn um að fjárlögin muni sýna lítinn halla og þeir hafi náð tökum á fjármálum og hér hafi ríkt agi og festa. Það þarf ekki annað en að skoða frumvarpið til að sjá að svo er ekki. Ég hugsa að ef hinn almenni launamaður gæti hagað sér með sínar tekjur og útgjöld eins og menn haga sér með fjárlögin væri illt í efni á æðimörgum stöðum. Hér samþykkir þingið fjárlög og í þeim fjárlögum sem við stöndum nú frammi fyrir og verða væntanlega samþykkt, eða a.m.k. stór hluti þeirra, er gengið út frá því að inn í fjáraukalög komi ákveðin verkefni sem ekki er hægt að taka tillit til í þessum fjárlögum. Samt eru fjáraukalögin hugsuð til að bregðast við ófyrirséðum útgjöldum. Menn boða hér við 3. umr. fjárlaga að inn í fjáraukalögin sem verða rædd í nóvember 2013 muni koma fjármunir vegna verkefna sem áætlað er að fara í samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Það er ekkert ófyrirséð. Það er fyrirséð og boðað í verkefninu.

Síðan taka menn til við fjáraukalögin. Þar eru samþykkt viðbótarfjárlög, fjáraukalög, við þau fjárlög sem áður hafa verið samþykkt. Hvað gerist eftir það? Þá kemur í ljós að menn hafa ekki staðið við fjárlögin, menn hafa ekki staðið við fjáraukalögin og þá kemur ríkisreikningur. Ef horft er til áranna sem nú þegar liggja fyrir eins og ársins 2010 og ársins 2011 var árið 2010 samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum áætlað að halli ríkissjóðs yrði 81.108 millj. kr. Þegar ríkisreikningur þess árs er gerður upp er hallinn 123.285 millj. kr. Það er farið sem nemur rúmum 42 milljörðum fram úr fjárlögum og fjáraukalögum. Nákvæmlega sömu sögu er að segja um árið 2011. Þá er hallinn áætlaður, samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum, 40 milljarðar. Samkvæmt ríkisreikningi ársins 2011 nam hallinn 89.424 millj. kr. Menn fóru um 49 milljörðum fram úr samþykktum fjárlögum og fjáraukalögum miðað við ríkisreikning.

Það er algerlega ljóst að niðurstaða ríkisreiknings ársins 2012, þrátt fyrir að hér sé nýbúið að samþykkja fjáraukalög, verður önnur en fjáraukalög og fjárlög segja til um. Svo leyfa menn sér að tala um að í ríkisfjármálum ríki agi og festa og sá tími sé liðinn er við eyðum um efni fram, eins og hv. 7. þm. Norðaust. Sigmundur Ernir Rúnarsson komst svo sérkennilega að orði. Þetta eru óásættanleg vinnubrögð. Og ég segi enn og aftur: Mér er slétt sama hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn. Þetta vinnulag, þessi vinnubrögð og þetta viðhorf til fjárlaga og fjáraukalaga er gersamlega óásættanlegt.

Ef venjuleg heimili mundu haga sér á sama hátt og gert er með fjárlög og fjáraukalög og sést í útkomu ríkisreiknings væru þau löngu orðin gjaldþrota og fyrirtæki sömuleiðis. Þess vegna verður að breyta um viðhorf þeirra sem vinna með fjárlög og fjáraukalög. Það er algerlega kristaltært í mínum huga að svona getum við ekki unnið og ég ítreka, mér er slétt sama hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn. Þetta er brot á lögum. En í ríkisreikningi þurrkum við út þessi brot á lögum, brot á fjárlögum og brot á fjáraukalögum. Með ríkisreikningi er allt þurrkað út. Þetta þættu slæmar uppeldisaðferðir í skóla og á heimilum.

En það er annað í þessu frumvarpi sem veldur mér áhyggjum. Ég gerði það að umtalsefni í ræðu minni við 2. umr. að settar eru 500 millj. kr., en upphæðin var reyndar lækkuð í 400 millj. kr., í sýningu á gripum Náttúruminjasafns Íslands. Grunnforsendur voru þær að aðgangseyrir ætti að rísa undir rekstri, en meiri hlutinn ákveður við 3. umr. að breyta þeim forsendum sem lagt var upp með varðandi sýningu Náttúruminjasafnsins í Perlunni og taka út að aðgangseyrir eigi að standa undir sýningunni og rekstri hennar. Mér er verulega til efs að það sé löglegt að gera þetta í nefndaráliti án þess að umræða fari fram og greint sé frá því í fjárlaganefnd, mér er til efs að það sé yfirhöfuð löglegt að breyta þannig undirstöðu þess sem gengið var út frá við 2. umr. og hægt að gera það sisvona í nefndaráliti af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar.

Þegar síðan kemur í ljós að Reykjavíkurborg sem á stærstan hlutann í Orkuveitunni hyggst kaupa Perluna af Orkuveitunni fyrir 950 millj. kr. verð ég að segja að manni finnst — og ég biðst afsökunar á þankaganginum — sérkennileg lykt af því að ríkisvaldið ætli með þessum hætti að styðja Reykjavíkurborg í því að kaupa Perluna af Orkuveitunni. Fjárlaganefndarmenn hafi fyrir það fyrsta hvergi séð neinn samning um það hvernig eigi að fara með þessa sýningu, hvernig eigi að fara með þessa fjármuni eða eitt eða neitt í þá veru. Þessi leikur með fjármuni ríkisins er í mínum huga dapurlegur og mér sýnist hann endurspeglast í verkefni í því sem tengist Hörpunni þar sem breyta á 400 millj. kr. skammtímaláni í eigin fé og síðan verði haldið áfram að setja þar inn fjármuni.

Það þekkja allir fjárhagsstöðu Orkuveitunnar þó svo að núverandi stjórn og forstjóra hafi tekist að lagfæra þann rekstur. Það vita allir hvernig arður af því fyrirtæki var tekinn út úr fyrirtækinu og settur inn í rekstur eigenda. Það er kannski hluti af vandamálum Orkuveitunnar ásamt vanhugsuðum áætlunum um framkvæmdir langt utan þess sem Orkuveitan ætti að vinna með. Þess vegna þykir mér afar dapurlegt hvernig aðkoma meiri hluti fjárlaganefndar er að þessari sýningu Náttúruminjasafns og hvernig í nefndaráliti einu og sér er horfið frá þeim grunnforsendum sem ætlaðar voru í upphafi. Ég velti fyrir mér hvernig það samræmist stefnu hinnar norrænu velferðarstjórnar að styðja þannig við höfuðborgina til að kaupa hús af Orkuveitunni meðan við gumum síðan af því að setja til viðbótar við jöfnun húshitunarkostnaðar skitnar 175 millj. kr. Það er spurning hvernig fólkinu sem býr á landsbyggðinni og á hinum köldu svæðum þykir forgangsröðun þessarar norrænu velferðarstjórnar undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Virðulegi forseti. Ég sagði í 2. umr. og ég stend við það að þau gjöld sem eru boðuð í tekjugrein frumvarpsins munu fara beint inn í vísitölu verðtryggingar og hækka lán heimilanna. Mér hefði þótt meiri bragur að því fyrir okkur öll, ekki bara fyrir þann meiri hluta sem hér ræður för heldur okkur öll, að hafa samhliða kjark að horfa til þess hvernig megi breyta því sem er inni í vísitölu verðtryggingar og koma þannig í veg fyrir að hækkaðar álögur í fjárlögum gangi beint til þess að hækka skuldir heimilanna. Við höfum ekki haft að því er virðist kjark til þess.

Við sjálfstæðismenn í minni hluta fjárlaganefndar, sem telst vera 1. minni hluti, höfum lagt til að horfið verði frá tillögum um auknar álögur samkvæmt tekjugrein frumvarpsins sem hafa bein áhrif á vísitölu verðtryggingar og munum leggja fram breytingartillögu þar að lútandi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig stuðningsmenn vinstri flokkanna bregðast við slíkum tillögum. Mér segir svo hugur um að varnarræðan muni birtast í því að sjálfstæðismenn vilji ekki hækka álögur á áfengi. Það á ekkert skylt við það. Mér er líka slétt sama hvað áfengi kostar í sjálfu sér. Þeir sem þar fara inn hafa val um að fara inn eða ekki og það er þeirra að ákveða hvað þeir kaupa. En ég hef áhyggjur af því að þessar hækkanir fari beint inn í vísitölu verðtryggingar vegna þess að það hækkar lán heimilanna og það er erfiðara fyrir æðimarga.

Það er alveg ljóst samkvæmt því frumvarpi sem við erum að fara að klára og afgreiða við 3. umr. og það er ljóst ef horft er á undanfarin ár að vaxtagreiðslur eru þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlagafrumvarpsins. Þess vegna hefur það verið áhersla okkar sjálfstæðismanna að ætli menn að taka arð út úr einstaka ríkisfyrirtækjum og innheimta veiðileyfagjald verði þeim fjármunum varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og draga þannig úr vaxtabyrði. Það er til hagsbóta fyrir alla í landinu, heimilin í landinu, fólkið, þjóðina alla eins og hún leggur sig, en sú leið er ekki valin. Ef við lítum á langtímaskuldir ríkissjóðs frá árinu 2009 eru þær 961.548 millj. kr. en á árinu 2011 eru skuldirnar orðnar rúmir 1.300 milljarðar. Skuldir og lífeyrisskuldbindingar samtals eru komnar í 1.900 milljarða. Þetta eru óhuggulegar tölur og af þessum upphæðum þarf að greiða vexti. Þess vegna ætti að vera forgangsmál að við greiðum niður vexti til að búa í haginn fyrir ríkissjóð, til að við getum betur einbeitt okkur að þeim frumskyldum sem ríkissjóði ber að sinna sem eru velferðarmálin, menntamálin og dómsmálin eða löggæslan í landinu. Það eru þau forgangsmál sem við ættum að einbeita okkur að. Mér sýnist það ekki vera gert og það hefur ekki breyst á milli 2. og 3. umr. hvað það varðar að þetta frumvarp kallar á hækkun skulda ríkissjóðs. Þetta frumvarp kallar á hækkun skulda heimilanna og það er dapurt.