141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður eyddi talsverðu af ræðutíma sínum áðan í að brigsla samnefndarmönnum sínum í fjárlaganefnd og þingmönnum stjórnarmeirihlutans um lögbrot, að þeir væru að brjóta lög hægri, vinstri við vinnu sína við gerð fjárlaga og framsetningu þeirra hér á þingi. Hv. þingmanni varð tíðrætt um ríkisreikning, mun á fjárlögum og ríkisreikningi. Um hvað erum við að tala þá? Í hverju felst munurinn á ríkisreikningi og niðurstöðu rekstrar ársins samkvæmt fjárlögum?

Við skulum skoða álit fjárlaganefndar sem var gefið út á skýrslu Ríkisendurskoðunar á endurskoðuðum ríkisreikningi 2010. Þar kemur þetta meðal annars fram. Eigum við að ræða um framlög til Íbúðalánasjóðs? Eigum við að ræða um sölu Sementsverksmiðju ríkisins sem bæði gleymdist að innheimta og borga? Eigum við að ræða um Lánasjóð landbúnaðarins? Eigum við að ræða um gjaldfærslu vegna ríkisábyrgðar upp á 27 milljarða kr.? Munurinn á rekstri ríkisins á fjárlögum og ríkisreikningi er fólginn í þeim gjaldfellingum og gjaldfærslum sem hefur þurft að grípa til á undanförnum árum vegna mistaka fyrri tíðar — einskiptisaðgerðir að stærstum hluta sem ég hef talið hér upp, þ.e. upp á tugi milljarða kr. Það hefur ekkert með rekstur ríkisins að gera frá degi til dags eða rekstrarniðurstöðuna samkvæmt fjárlögum.

Ég hélt að allir ættu að vita að rekstur ríkisins samkvæmt fjárlögum hefði gengið eftir langt innan allra viðurkenndra skekkjumarka. Ríkisreikningur er allt annar hlutur. Þar koma fram einskiptisaðgerðir, margar stórar og margar þungar, en þarna held ég að menn ættu að reyna að skilja á milli ef menn vilja taka málefnalega umræðu um fjárlögin.