141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:13]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 við 3. umr. Eins og komið hefur fram í umræðunni eru í sjálfu sér viss þáttaskil í fjármálum ríkisins og sést á því frumvarpi sem hér er lagt fram að tími hins harða niðurskurðar ætti að vera og sé liðinn. Að sjálfsögðu þarf að beita áfram miklu aðhaldi, bæði halda utan um tekjustofnana og tekjur ríkisins og ekki síst að fá spá um útgjöldin. Svo sannarlega eru verkefnin um ríkisfjármálin áfram brýn og vandasöm.

Ég vil byrja á að lýsa því yfir að það er fagnaðarefni hvernig staðan í fjármálum ríkisins hefur vænkast á síðustu árum og missirum. Það er bæði að þakka þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til og Alþingi en ekki síður sérstöku góðæri til lands og sjávar sem hefur skilað miklum og góðum tekjum, bæði fyrir samfélagið og ríkissjóð. Þetta á við um nánast allar greinar sjávarútvegs. Landbúnaðurinn hefur staðið styrkum fótum og við höfum framleitt mat fyrir Íslendinga og reyndar líka til útflutnings sem er gríðarlega mikilvægt. Þegar talað er um vægi landbúnaðarins er sérstök ástæða til að undirstrika það öryggi sem felst í því að vera hér með öflugan landbúnað, öfluga matvælaframleiðslu, til þess að tryggja nýtingu jarðargæða og búsetu landsins í hinum dreifðu byggðum og ekki hvað síst að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. Út af því sem við framleiðum hér á landi þurfum við ekki að afla erlends gjaldeyris til að flytja það inn. Menn gleyma því oft í umræðunni um matvælaframleiðsluna og landbúnaðinn að við erum ekki bara að hugsa í tímabundna lægsta verðinu á einhverjum uppboðsmörkuðum erlendis, þetta er langtímaöryggi sem við erum að tala um og ekki hvað síst erum við að nýta vinnuafl, þekkingu og gæði landsins.

Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta skiptir svo gríðarlega miklu máli. Það er hollt að horfa til baka á síðustu mánuði ársins 2009 þegar landið var að mestu lokað fyrir viðskiptum erlendis frá vegna þeirrar miklu óvissu og þess hruns sem varð þá á efnahagskerfi landsins, bönkum og fjármálafyrirtækjum. Þá fólst öryggi í því að hafa hér sem öflugasta eigin matvælaframleiðslu jafnframt því að geta skaffað störf og sparað um leið gjaldeyri með því að framleiða hér. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin í þessum efnum. Sjálfstæði þjóðar felst í fæðuöryggi hennar og hversu vel hún getur tryggt á eigin forsendum fæðuöryggi íbúanna.

Þetta var inngangur að ræðu minni.

Við þessi tímamót er lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár sem er þá að hluta til fyrir þetta þing, á ábyrgð þessa þings sem nú situr, en einnig verður í apríllok kosið nýtt þing og þá kemur væntanlega ný ríkisstjórn. Hvort hún verður samsett af einhverjum sem sitja ekki núna skiptir ekki meginmáli en þessi fjárlög munu ná inn í næsta kjörtímabil. Þá hlýtur maður að horfa til þeirrar forgangsröðunar sem þetta fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár vísar til.

Þar vil ég þess vegna nefna tiltekin atriði sem snerta ekki síst minn bakgrunn. Ég kem af landsbyggðinni, úr dreifbýlinu, ég þekki atvinnugreinar til lands og sjávar og þekki stöðu íbúanna þar, við hvaða kjör þeir búa og hver samkeppnisstaða þeirra er. Búsetuskilyrðin, þau jöfnunarskilyrði sem fyrir hendi eru, ráða því hvernig möguleikar til dreifðrar búsetu eru.

Ég vil víkja sérstaklega að rafmagninu. Rafmagn á samkeppnishæfu verði alls staðar á landinu skiptir gríðarlega miklu máli fyrir búsetuna. Rafmagnsveitur ríkisins, sem hafa með höndum meginhluta af bæði vinnslu og sérstaklega dreifingu til íbúa landsins, og Orkubú Vestfjarða, sem er nánast alfarið með Vestfirði, eru meðal grunnþjónustustofnana okkar. Þess vegna horfir maður til þess út í hvaða vegferð er verið að leggja við þessa fjárlagagerð. Þar vil ég leyfa mér að gagnrýna mjög ákveðið og fast þá stefnu sem lagt er upp með hvað þetta varðar, einmitt hvað snertir íbúa hinna dreifðu byggða.

Orkubúi Vestfjarða er gert að skila 60 millj. kr. í arð til ríkisins. Það þjónar nánast alfarið íbúunum á Vestfjörðum, þarna eru í kringum 6 þús. manns og það er algjört nýmæli að fara að krefja samfélagsfyrirtæki og samfélagsstofnanir um arð til ríkisins. 60 milljónir þýða um 10 þús. kr. á hvern íbúa á Vestfjörðum sem eiga að greiða arð af þjónustustofnun sinni til ríkisins. Mér finnst þetta alveg óverjandi og þetta samræmist engan veginn að mínu mati stefnu og áherslu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og alls ekki því sem ég hef staðið fyrir.

Hið sama má segja um Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik. Meginhlutverk þess fyrirtækis er að selja og dreifa rafmagni til almennra notenda og nota það fjármagn sem skapast í fyrirtæki til að styrkja dreifiveitur og línulagnir og til að jafna orkukostnað. Rarik er krafið um 310 millj. kr. í arð til ríkisins. Þetta finnst mér algjörlega óásættanlegt fyrir utan það svo að það er stefnumörkun að boðið verði upp á rafmagn á sem jöfnustu verði um allt land. Það er nú ekki svo. Í ágætri grein sem ég hef áður vitnað til sem Árni Steinar Jóhannsson, formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkru dregur hann einmitt svo sterkt fram þessa jöfnunarkröfu. Þessu var reyndar lofað þegar orkutilskipun Evrópusambandsins var innleidd hér 2003, þá átti að koma á jöfnuði í áföngum í dreifikostnaði rafmagns um landið en það hefur því miður alls ekki gengið eftir, og í grein Árna Steinars Jóhannssonar segir að í orði sé löggjafinn sammála því að með nýrri raforkuskipan skuli kostnaðar við dreifingu á raforku jafnaður. Markmið þeirra laga var að jafna kostnað við dreifingu á raforku til almennra notenda en eins og við vitum er eitt í orði og annað á borði. Fjárveitingavald Alþingis hefur aldrei frá setningu laganna komið inn með þá fjármuni sem til þarf til að jafna þennan kostnað. Á fjárlögum fyrir 2013 þurfa þessar jöfnunarniðurgreiðslur í jafnan flutningskostnað að hækka um 800 millj. kr., segir stjórnarformaður Rariks, til að uppfylla þau loforð sem gefin voru og einnig til þess að koma á þessum jöfnuði.

Þá hefur einnig verið lögð áhersla á jöfnuð í húshitun landsmanna óháð því við hvernig orkugjafa þeir byggju en við það hefur heldur ekki verið staðið þrátt fyrir að hér sé ítarleg og góð skýrsla sem unnin var og skilað nú í haust, að mig minnir, um jöfnun orkukostnaðar og hvað þyrfti að gera í þeim efnum, skýrsla starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar. Starfshópurinn kemst einróma að þeirri niðurstöðu að það sé í rauninni krafa að jafna orkukostnað landsmanna og hitunarkostnað og það eigi að gera, eins og stendur feitletrað í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Tillaga starfshópsins er að niðurgreiðslur til húshitunar verði með þeim hætti að:

Flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu.“

Það er alveg klárt hver hin pólitísku skilaboð eru, en þarna vantar á. Þess vegna er ég mjög óhress með að í áherslum fyrir fjárlög næsta árs skuli ekki vera staðið við þessi fyrirheit um jöfnun húshitunar og um jöfnun dreifikostnaðar á rafmagni vítt og breitt um landið eins og ítrekað hafa verið gefin fyrirheit um. Við förum þá núna inn í næsta ár með fjárlög þar sem því hefur verið lýst yfir að við þurfum ekki að beita sama niðurskurði og undanfarin ár, alls ekki, og snúum því jafnvel við á ýmsum sviðum, en þetta atriði stendur þarna út af. Mér finnst þetta fela í sér slæm pólitísk skilaboð til landsbyggðarinnar og hef þess vegna flutt tillögu um að staðið verði við þessi fyrirheit. Ég vona að svo verði gert.

Þá vil ég í framhaldi af þessu líka nefna það og leggja áherslu á þær áherslur sem ég hef staðið fyrir, áherslur sem hafa verið mínar og míns flokks, einmitt um fleiri jöfnunaraðgerðir. Við skulum aðeins fara yfir hvað það eru miklu meiri álögur á íbúa á landsbyggðinni á mörgum sviðum en annars staðar á hinum þéttbýlli svæðum. Tökum dæmi af mjög sterkum tekjustofni ríkisins, olíu- og bensíngjaldi. Þar hafa innheimst verulega margir milljarðar króna inn í ríkið í formi skatta á olíu og bensín. Svo sannarlega fer hluti af þessu í að standa undir vegagerð í landinu en þarna er líka gríðarleg mismunun. Menn skulu bara gera sér grein fyrir því og þetta á ekki að vera feimnismál. Ef það er feimnismál munum við aldrei ráða bót á því. Ísland er strjálbýlt land með byggðir langt út til stranda og inn til dala.

Við leggjum áherslu á vegagerð en þessar fjarlægðir verða samt alltaf fyrir hendi. Þegar við færum þar að auki þjónustu íbúanna á æ færri staði á landsbyggðinni þýðir það aukinn fjarlægðarkostnað fyrir þá sem þar búa. Sá kostnaður sem lendir á fólki er ekki tekinn með í reikninginn þegar talað er um hagræðingaraðgerðir og sparnaðaraðgerðir við að leggja niður þjónustu og þjappa henni saman.

Í könnun sem Hagstofan gerði fyrir nokkrum árum var kannað hvernig neysla fólks eftir búsetu væri breytileg, hverju fólk stæði þar frammi fyrir. Þá kom í ljós að íbúar á landsbyggðinni utan stórhöfuðborgarsvæðisins greiddu í skatta til ríkisins í gegnum vörugjald af bifreiðum, í gegnum bensín og olíu, 40% meira en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. FÍB hefur reiknað út að árskostnaður sé um 506 þús. kr. á almennan fjölskyldubíl og þar af eru skattar um 250 þús. og þá þýðir þetta upp undir 100 þús. kr. sem viðkomandi borgar meira í skatta til ríkisins en íbúar hér á svæðinu. Þó að við viljum draga úr olíu- og bensínnotkun eins og nokkur kostur er verður ekki litið fram hjá því að til þess að geta byggt Ísland verður að minnsta kosti jöfnuður að ríkja hvað þetta varðar þannig að skattarnir vegna eldsneytis og eldsneytisnotkunar leggist ekki með svona gríðarlega misjöfnum þunga á íbúana eftir búsetu.

Ég vil sterklega benda á þetta hér því að í þeim aðgerðum öllum sem við höfum staðið í á undanförnum mánuðum, missirum og árum hefur mér fundist vera hallað á landsbyggðina hvað svo marga þætti varðar. Niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni og lækkun þjónustustigs í heilbrigðisþjónustu eykur á þennan fjarlægðarkostnað. Breyting á löggæslu, breyting á sýslumannsþjónustu, allt þetta leiðir til þess að íbúarnir þurfa að fara lengra til að sækja þessa opinberu grunnþjónustu. Þá þarf að koma til móts við það líka hvað þetta varðar en ekki bara skattleggja fjarlægðirnar, skattleggja búsetu fólks, skattleggja mest þá sem búa lengst frá höfuðborgarsvæðinu eða frá miðstöð þjónustusvæðanna. Það getur ekki verið í anda þeirra sem vilja hafa hér jöfnuð og jafna samkeppnisaðstöðu um allt land fyrir utan hvað flutningar á neysluvöru og þess háttar verður þar miklu dýrari. Ofan á þetta bætist síðan virðisaukaskattur sem kemur aftur til viðbótar við það að auka þennan mismun. Mér finnst mjög mikilvægt að koma inn á þetta þegar við erum að horfa á stefnumörkun sem fjárlögin hafa fyrir þá ríkisstjórn og það Alþingi sem situr á hverjum tíma.

Ég legg áherslu á samgöngurnar. Það hefur verið barist fyrir því að halda uppi áætlunarflugi, flugsamgöngum við þá staði sem eru fjær, og þessar samgöngur eru líka grunnurinn að því að geta haldið upp fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi og þjónustustigi um allt land. Þess vegna á það ekki að þurfa að vera eilífðarbaráttumál í þingsölum að ná lágmarksfjárveitingu inn til að tryggja að þær flugleiðir sem eru grundvöllur fyrir búsetu um landið fái gengið. Það er samt ekki þannig að íbúarnir fái þjónustuna á lágu verði. Tökum íbúa í Árneshreppi á Ströndum þar sem stöðugt er látið hanga yfir þeim hvort flugið verði áfram eða ekki. Flugvöllurinn á Gjögri er í því ástandi að það gæti þurft að stöðva flug þess vegna, en það að fljúga frá Gjögri til Reykjavíkur og til baka kostar um 32 þús. kr. Fyrir fólk sem þarf að senda fólk í skóla, leita læknis og sækja sér aðra þjónustu er þetta engin smáupphæð. Þess vegna á þetta að vera alveg skilyrðislaust, það á ekki að þurfa að vera að þjarka um það hér að fjármagn til að halda uppi þessu reglubundna og nauðsynlega áætlunarflugi sé tryggt. Það er niðurlægjandi gagnvart íbúum landsbyggðarinnar þegar þarf að þjarka um þessar upphæðir, 10 þúsund, 100 þúsund eða nokkrar milljónir til eða frá til þess að standa undir þessari grunnþjónustu við íbúana.

Sem betur fer kemur nokkur viðbót inn við 3. umr. fjárlaga hvað varðar flugið, en ég óttast að það sé ekki nóg til að tryggja þetta og við þurfum ekki að fara aftur og aftur í gegnum þessa umræðu. Ég minni á flugið á Sauðárkrók sem átti að fara í gang á síðasta ári og var samþykkt sérstök fjárveiting til þess en síðan var það ekki nýtt og flug lagðist þar af. Miklar væntingar heimamanna eru um að þetta flug geti hafist að nýju og mér finnst skylda Alþingis að tryggja að svo geti orðið.

Það sem ég vildi halda mig svolítið við eru landsbyggðarmálin því að það er stefnumörkun þessa fjárlagafrumvarps. Þar vil ég nefna líka háskólana, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, Háskólann á Hólum og Bifröst. Þessir skólar eru flaggskip mennta og menningar fyrir landið og í viðkomandi héruðum. Landbúnaðarskólarnir eru líka miðstöð mennta, vísinda og rannsókna á sviði sem við höfum lagt áherslu á undanfarið. Sumir kalla það græna atvinnustarfsemi, það er það sem tengist landbúnaði, ferðaþjónustu, fjölþættum sviðum þessara mála en það er svo fjarri því að komið hafi verið til móts við eðlilegar og nauðsynlegar kröfur og þarfir þessara skóla til að geta sinnt þeim verkefnum sem ríkið hefur með lögum falið þeim að sinna. Það að þurfa að berjast með blóðugum hnúum til að ná í 10 milljónir, 20 milljónir, 30 milljónir o.s.frv. til að tryggja að þessar stofnanir fari ekki í þrot eru líka pólitísk skilaboð sem ég er ekki sammála. Þarna á einmitt að raða í forgang.

Ég nefni aðrar stofnanir á landsbyggðinni, t.d. Skógrækt ríkisins á Hallormsstað sem var flutt frá Reykjavík og austur fyrir nokkrum árum en hefur á undanförnum árum búið við stöðugt og aukið fjársvelti. Landsbyggðin verður sérstaklega mjög viðkvæm fyrir því þegar stofnanir í umhverfi þeirra eru sveltar eða látnar standa frammi fyrir stöðugri óvissu og rekstrarvanda. Svo erum við að sjálfsögðu stolt yfir því góða verki sem unnið er á vegum þessara stofnana þannig að ég tel að Alþingi og ríkisstjórnin hefðu átt að koma beint og með mun meiri myndarskap að því að treysta fjárhagsstöðu þessara stofnana, háskólanna úti á landi og annarra stofnana þar, því að þar er hvert starf og hvert verkefni gríðarlega mikilvægt. Ég er ekki að segja að það sé ekki það sama á höfuðborgarsvæðinu, alls ekki, en það er meiri fjöldi til að dreifa á þeim breytileika sem getur verið í starfsemi á vegum stofnana sem þessara.

Að lokum vil ég minnast á þjóðkirkjuna. Eins og rækilega hefur komið fram í umræðum hafa lögboðnir tekjustofnar þjóðkirkjunnar verið skertir, þ.e. þau gjöld sem eiga að ganga til starfsemi kirkju og safnaða og innheimt eru í gegnum ríkissjóð hafa ekki skilað sér til fulls til þjóðkirkjunnar. Eitt er að halda ekki þá samninga sem gerðir, og það er grafalvarlegt mál, en annað er sá gríðarlega mikli niðurskurður sem hefur verið beitt á þjóðkirkjuna og starfsemi safnaðanna vítt og breitt um landið. Hann er mjög alvarlegur, ekki síst þegar við horfum á hið fjölþætta hlutverk og verkefni þjóðkirkjunnar. Niðurskurður mun ekki hvað síst koma niður á sóknum og safnaðarstarfi úti um land þar sem hver króna skiptir gríðarlega miklu máli og niðurskurður mundi koma harðast þar niður á starfsemi þjóðkirkjunnar.

Ég veit að kirkjuþing hefur ályktað sérstaklega um þungar áhyggjur af alvarlegri fjárhagsstöðu sókna í landinu og jafnframt krafið þingið um tafarlausa leiðréttingu á þessum sóknargjöldum. Ég styð kröfur kirkjunnar, ég styð að hún fái það sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Kirkjan er ekki stofnun ríkisins í þeim skilningi. Hún hefur sína tekjustofna sem ríkið hefur tekið að sér að innheimta samkvæmt lögum þar um og það er ekki hægt að ganga á tekjustofn með þeim hætti sem þarna hefur verið gert án þess að menn viti hvaða afleiðingar það hefur í för með sér.

Frú forseti. Ég nefni bara þessi atriði hér sem þau sem ég vildi sjá sem stefnumörkun fyrir næsta ár sem eins konar yfirlýsingu af hálfu míns flokks sem byggðist ekki hvað síst upp af áherslum og stefnumálum til að varðveita náttúruleg gæði landsins og byggð og búsetu um land allt. Þá á það líka að endurspeglast í áherslunum og forgangsröðuninni í fjárlögum. Það er gengið hart á landsbyggðina. Samkeppnisstaða hennar verður stöðugt veikari, því miður, á einstökum svæðum og þess vegna ber okkur skylda til að tryggja að minnsta kosti sem mestan jöfnuð í gegnum bæði útgjöld og tekjur ríkisins.

Það ætti þá að vera skylda okkar og ég ítreka að einna mestar áhyggjur hef ég af því að við skulum viðhalda þeim mikla mismun sem er á verði raforku og gæðum hennar eftir búsetu. Fátt er mikilvægara til að tryggja jafnræði til búsetu og atvinnulífs en rafmagnið og innflutningskostnaður eins og ég minntist á.

Þetta voru þær áherslur sem ég vildi koma með við 3. umr. Eitt er eftir, ég gerði mjög ítarlega grein fyrir því við 2. umr. um Evrópusambandið en eitt af forgangsatriðum þessa fjárlagafrumvarps er áframhaldandi fjárstuðningur og ráðstöfun fjár til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og til innleiðingar á tilskipunum þess. Ég er bara svo fullkomlega ósammála þeirri forgangsröðun og því að ríkisstjórn sem á að vera á móti inngöngu í Evrópusambandið, a.m.k. Vinstri hreyfingin – grænt framboð, (Gripið fram í.) láti sig hafa það að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og fyrir næstu ríkisstjórn sem felur í sér milljarða króna til Evrópusambandsumsóknarinnar. Það væri nær að verja þessum fjármunum og þessum áherslum til að treysta heilbrigðisstofnanirnar í landinu, til að treysta jöfnuðinn í raforku o.s.frv., fyrir utan það að Evrópusambandsumsóknin kostar okkur ekki aðeins milljarða króna heldur er einnig verið að eyða kröftum og áherslum til einskis. Ég hef þá trú að þjóðin muni aldrei samþykkja að ganga í Evrópusambandið (Forseti hringir.) og þá eigum við líka að hætta þessari vitleysu sem Evrópusambandsumsóknin er.