141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er alveg hjartanlega sammála því að menn þurfa að vera á sömu blaðsíðu hvað upplýsingagjöf varðar svo að framhaldið verði gott og menn séu samtaka. En ég álít ekki að það sé búið að taka neinar ákvarðanir um þetta fyrr en frumvarp hefur komið fram hér á Alþingi, við höfum fjallað um það og samþykkt það. Í þessu nefndaráliti segir að taka eigi til skoðunar hvort rétt sé að hafa verkefnið í opinberri framkvæmd í stað þess að fara leiguleiðina eða einkafjármögnunina. Í samræmi við niðurstöður þeirrar skoðunar á því hvort rétt sé að fara í opinbera framkvæmd þá verði gerð tillaga að því hvernig megi áfangaskipta og forgangsraða mikilvægustu verkþáttum með það að markmiði að það nýtist spítalanum sem fyrst.

Ég lít alls ekki svo á að búið sé að taka neinar slíkar ákvarðanir. Ég lít þvert á móti á þetta sem fyrirheit um að við fáum inn í þingið tillögu til skoðunar þannig að við getum metið það hvernig best er að koma þessum verkum fyrir. Blönduð leið er hér nefnd í þessu nefndaráliti. Það kann vel að vera. Það voru allir sammála um það hér á árinu 2010 að það væri rétt að fara slíka leiguleið. Nú virðast menn hafa skipt um skoðun á því hversu hagkvæm hún sé fyrir samfélagið og ekki bara það heldur hafa aðstæður breyst, eins og ég nefndi áðan, þannig að ríkissjóður er núna í færum til að sjá sjálfur um fjármögnunina. Þetta kemur bara inn til skoðunar hjá okkur og já, ég tel mikilvægt að við séum öll á sömu blaðsíðu og ég vænti þess að við verðum það þegar frumvarpið kemur hér inn í janúar.