141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að þegar hefur verið varið um 1.500 millj. kr. til undirbúnings nýbyggingar Landspítalans við Hringbraut og að sjálfsögðu er það hluti af 45 milljarða byggingarkostnaði. Að sjálfsögðu falla þessir fjármunir á tiltekna þætti undirbúningsins og að sjálfsögðu verður hægt að greina hvar er búið að greiða hluta af kostnaðinum og hvar ekki. Mér kemur ekki til hugar annað en að þannig sé staðið að verki.

Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um breytingu. Það liggur fyrir tillaga að breytingu með því að það er boðað frumvarp um aðra leið heldur en leiguleiðina. Það er sú tillaga sem má lesa um af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar og í minnisblaði og fréttatilkynningum frá ríkisstjórn frá 30. nóvember síðastliðnum.

Sú breyting sem verður á áætlunum um þetta verður tekin hér í Alþingi. Alveg hreint eins og það tókst mjög góð samstaða um verkefni hér á sumrinu 2010 vona ég að við getum öll, stjórn og stjórnarandstaða, sest yfir þessar nýju forsendur strax í byrjun næsta árs og unnið okkur áfram að sameiginlegri niðurstöðu. Ég ætla ekkert að segja hver hún verður. Ég ætla ekkert endilega að segja að einn eða annar hluti eigi að vera í einkaframkvæmd og annar í leiguleið. Ég hef ekki þær forsendur hér. En ég treysti því að þegar málið kemur hér inn til Alþingis í byrjun árs í formi frumvarps getum við og viljum við og munum við öll setjast niður og vinna okkur saman til sameiginlegrar niðurstöðu eins og við náðum á sumrinu 2010.