141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga 2013. Fjárlög sem marka svo sannarlega tímamót frá hruninu því að okkur er að takast það mikla verkefni sem þjóðin fól okkur við síðustu kosningar, að koma þjóðfélaginu aftur á réttan kjöl eftir bankahrunið. Við sem vorum í framboði fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð fyrir síðustu kosningar töluðum alltaf á þeim nótum að fram undan væru erfiðir tímar sem mundu taka í hjá öllum landsmönnum ef takast ætti að endurreisa efnahag landsins. Nokkrir hafa gengið úr skaftinu eins og kannski mátti búast við þegar þurft hefur að fara í svo margar, erfiðar og sársaukafullar aðgerðir, en verkin sýna merkin og þegar við erum komin á þann stað að leggja fram fjárlagafrumvarp með um 3 milljarða króna halla í stað 216 milljarða króna halla eins og hann var þegar þessi vegferð hófst árið 2009 er ég bara nokkuð stolt yfir þeim mikla árangri sem náðst hefur með samstilltu átaki allrar þjóðarinnar.

Þessi fjárlög bera þess merki að sérstaklega er horft til barna og fjölskyldufólks. Þar má nefna að 2,5 milljarðar fara í auknar barnabætur. Það er verið að framlengja sérstakar vaxtabætur og leggja þar til um 2 milljarða og auknar greiðslur fara til foreldra í fæðingarorlofi. Jafnframt er unnið að því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Þetta tel ég vera mikinn áfanga í að bæta kjör ungs barnafólks sem er með mikla framfærslubyrði vegna húsnæðis og kostnaðar af framfærslu barna sinna. Nú er persónuafslátturinn verðtryggður sem hann var ekki í svokölluðu góðæri og bætur almannatrygginga taka þeim hækkunum sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Ég tel mjög brýnt að bæta kjör þeirra sem búa eingöngu við bætur úr almannatryggingakerfinu. Ljúka þarf sem fyrst endurskoðun á almannatryggingakerfinu og einfalda bótaflokka og vinna eftir viðurkenndum framfærsluviðmiðum svo að öllum sem búa þurfa við laun úr almannatryggingum sé tryggð örugg framfærsla.

Það er gleðiefni að aldrei hafa verið fleiri nemendur í framhaldsskólum landsins og bætt hefur verið inn í þann málaflokk við 2. umr. fjárlaga 325 millj. kr., sem er mjög gott og sýnir að samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, Nám er vinnandi vegur, hefur skilað sér vel. Á milli 2. og 3. umr. fjárlaga voru lagðir til auknir fjármunir til háskóla í landinu. Þar vil ég sérstaklega nefna að um 40 millj. kr. fara til Háskólans á Hólum, 40 millj. kr. til Háskólans á Bifröst og 10 millj. kr. til Landbúnaðarháskóla Íslands. Þessi auknu framlög skipta skólana miklu máli og mikilvægt er að styrkja rekstrargrundvöll þeirra og vinna áfram að endurskipulagningu og hagræðingu svo að þeir hafi fulla burði til að sinna sínu mikilvæga hlutverki heima í héraði.

Fjárfestingaráætlun sem gerð hefur verið fyrir næstu þrjú ár skiptir líka miklu máli fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að 4,2 milljörðum af tekjum af veiðigjaldi verði ráðstafað í ný verkefni, þ.e. til samgöngumála, byggðamála, tækniþróunar og rannsókna. Einnig er gert ráð fyrir að 500 millj. kr. fari í uppbyggingu ferðamannastaða og 250 millj. kr. í uppbyggingu þjóðgarða, sem er mjög mikilvægt þegar fjöldi ferðamanna eykst með jafnmiklum hraða og verið hefur undanfarin ár. Lagt var til af meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 3. umr. að leggja löggæslunnar í landinu til viðbótar 200 millj. kr. og veitir ekki af í þann málaflokk. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum í niðurgreiðslu kostnaðar við húshitun á köldum svæðum. Ég lít svo á að þetta sé áfangi, ég endurtek áfangi, í að bæta búsetuskilyrði á þeim stöðum á landinu sem búa við háan framfærslukostnað. Ég tel að setja eigi í forgang á næstu fjárlögum að haldið verði áfram á þeirri vegferð að bæta búsetuskilyrði landsmanna. Þar vega að sjálfsögðu þungt niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði sem í fjárlögum nú er gert ráð fyrir að verði um 1,5 milljarðar kr. og jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku verði 240 millj. kr. Við þurfum að halda áfram að leggja fjármuni í þessa málaflokka þegar við höfum betri efni til og þeir verði á fjárlögum sem koma á eftir þessum, fyrir árið 2014.

Áfram verður flutningsjöfnuður til útflutningsfyrirtækja sem hófst á síðasta ári og hefur gengið vel. Með útboði á strandsiglingum á næsta ári má gera ráð fyrir lægri flutningskostnaði sem nýtist þeim landsmönnum sem geta nýtt sér slíkan flutning sem og fyrirtækjum. Milli 2. og 3. umr. lagði meiri hluta fjárlaganefndar til að framlag til innanlandsflugs á næsta ári yrði aukið um 75 millj. kr. Mun það meðal annars nýtast í stuðningi við innanlandsflug á næsta ári, en þær leiðir sem eru í dag styrktar af ríkinu verða boðnar út. (Gripið fram í.)

Engin hagræðingarkrafa er gerð á rekstur sjúkrahúsa, heilsugæslu, heilbrigðisstofnana eða öldrunarstofnana og er þeim erfiða þætti lokið. Á milli 2. og 3. umr. var lögð til hækkun á útgjöldum til velferðarráðuneytisins upp á 1,5 milljarða kr. og einnig er lagt til að aukið verði framlag til tannlækninga barna um 100 millj. kr. Er það liður í að mæta tillögum starfshóps um að auka tannheilbrigði barna og stefna að því að gera tannlækningar barna gjaldfrjálsar í áföngum. Það er eitthvað sem margir hafa beðið eftir því að þessi málaflokkur hefur reynst mörgum fjölskyldum erfiður og dýr og hætt við að það hafi bitnað á tannheilsu margra ungmenna. Ég tel að þetta sýni hvernig þessi ríkisstjórn vill vinna á velferðarsviðinu þegar hún hefur til þess fjármuni sem ekki hafa legið á lausu fram til þessa. Nú þegar við erum farin að sjá fyrir endann á þessum miklu erfiðleikum getum við sýnt fram á hvernig við viljum vinna og mæta fjölskyldum og barnafólki í landinu og byggja upp öflugt velferðarkerfi.

Að lokum vil ég nefna að 13 milljarðar kr. verða lagðir í framlag til Íbúðalánasjóðs, en staða hans er mikið áhyggjuefni, ekki síst fyrir okkur landsbyggðarfólk. Íbúðalánasjóður er vitaskuld landsbyggðinni mjög mikilvægur og hefur gegnt lykilhlutverki í útlánastarfsemi víða um land þar sem aðrar fjármálastofnanir hafa ekki treyst sér til að lána til húsnæðiskaupa. Það er okkur öllum umhugsunarefni þegar horft er til þess að fjármálastofnanir telja sig eiga að rísa undir því nafni að vera bankar allra landsmanna. Þar hefur því miður oftar en ekki verið misbrestur á þegar um er að ræða lán til íbúðakaupa á þeim stöðum sem viðkomandi stofnanir telja að veðin séu ekki nægjanlega trygg.

Stjórnarandstöðunni hefur verið tíðrætt um gæluverkefni ríkisstjórnarinnar í þessu fjárlagafrumvarpi. Mér þætti fróðlegt að vita hverju menn vildu henda út af þeim liðum sem hér hafa verið taldir upp og eru til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Það er hvatning til áframhaldandi góðra verka í ríkisfjármálum þegar allir hagvísar eru jákvæðir og vísa veginn fram á við og erlendir sérfræðingar gefa hagstjórninni heilbrigðisvottorð. Vil ég þar nefna til dæmis Lars Christensen, sérfræðing hjá Danske bank, sem varaði Íslendinga við hruninu á sínum tíma. Á hann var nú því miður ekki hlustað. Nýlega var fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins staddur á Íslandi og hann taldi að okkur gengi ótrúlega vel að komast út úr kreppunni. Helsta ógnunin við hagsmuni okkar og útflutningsgreinar væri erfitt efnahagsástand í Evrópu. Það er vissulega áhyggjuefni ef þjóðunum sem standa þar höllustum fæti gengur illa að vinna sig út úr þeirri kreppu, þjóðum sem við höfum selt mikið af okkar útflutningsvörum til, fiskafurðum og öðru því um líku.

Það er gömul saga og ný að upphefðin kemur oftar en ekki að utan, en ég held að enginn geti neitað þeim mikla árangri sem náðst hefur nema gegn betri vitund. Öll merki sýna fram á að okkur er að takast það ætlunarverk að koma okkur út úr þessum miklu efnahagserfiðleikum.

Í ár var Alþingi snemma á ferðinni með fjárlögin en samkvæmt nýjum þingsköpum er skylt að mæla fyrir þeim á fyrsta degi þingsins á hausti og stefna skal að því að ljúka þeim í fyrstu viku desember. Allt gekk þetta eftir til að byrja með en nú er kominn 19. desember. Á milli fyrstu viku desember og 19. desember fór fram málþóf, að ég tel, þó að aðrir vilji segja að þar hafi farið fram efnismikil umræða um fjárlagafrumvarpið. Margir töldu að það ætti samt eitthvað skylt við málþóf.

Mikil og fagleg vinna hefur farið fram innan fjárlaganefndar og frumvarpið fengið góða umfjöllun. Ég hef litið þannig á að þeir sem standa að stjórnarmeirihluta hverju sinni hafi haft langan aðdraganda að því að fara yfir stærstu línurnar og leggja fram áherslur sínar í samræmi við stöðu ríkissjóðs hverju sinni, en á lokametrunum fari menn í handavinnuna við að fínpússa fjárlögin að teknu tilliti til þess sem stendur út af. Ég hef fullan skilning á að stjórnarandstaðan leggi fram áherslur sínar og breytingartillögur, annað væri óeðlilegt, en ég hef lítinn skilning á því þegar stjórnarsinnar koma fram eftir alla þá vinnu sem á undan er gengin og bjóða fram sína óskalista án tillits til þeirrar miklu vinnu sem liggur að baki við að mæta hagsmunum og óskum úr ólíkum áttum.

Þekkt er sagan af frambjóðandanum sem fór um kjördæmi sitt fyrir kosningar fyrir kosningar og lofaði öllu fögru hægri, vinstri, og sagði við kosningastjóra sinn eftir fyrirspurn kjósanda á fundi um flugsamgöngur; Heyrðu góði, skrifaðu eitt stykki flugvöllur. Já, það er auðvelt að lofa öllu fögru en erfiðara reynist oft að efna öll loforðin þar sem fæstir eru í þeirri stöðu að ráða ferðinni einir og þurfa í samstarfi við aðra að taka tillit til fleiri skoðana og áherslna sem þarf að samræma og komast að sameiginlegri niðurstöðu um. Eða vill einhver búa við einræði? Þurfum við ekki öll að taka tillit hvert til annars? Takast á um stefnur og áherslur en ljúka svo málum með sameiginlegri niðurstöðu sem við stöndum sameinuð að í samstarfi? (Gripið fram í.) Jú, annars væri ekki um samstarf að ræða. Ég efast ekki um að allir þeir 63 þingmenn sem eru á Alþingi gætu komið fram með sína hátíðarútgáfu af fjárlögum ef þeir þyrftu hvorki að taka tillit til annarra kjörinna þingmanna sem þeir eru í samstarfi við né horfa í fjárhagsstöðu ríkissjóðs hverju sinni, en veruleikinn er bara ekki þannig.

Við berjumst fyrir því að koma sjónarmiðum okkar í gegn í þeirri vinnu sem fer fram í hinum ýmsu málaflokkum sem við fjöllum um og sem betur fer sjáum við oftar en ekki árangur af verkum okkar. Sjaldnast ná menn fram ýtrustu óskum sínum en þannig er nú lífið sjálft. Við þurfum að taka tillit hvert til annars og horfa á heildarmyndina. Ég hef oftar en ekki leikið jólasvein í fjölskylduboðum en ég er ekki tilbúin að leika jólasvein þegar fjárlög ríkisins eru annars vegar. Þar er meira undir en svo að hægt sé að segja: Viltu flugvöll, vinur? Ég skrifa hann þá niður hjá mér.

Þessi fjárlög eru að ég tel tímamótafjárlög sem sýna þann mikla árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum á ótrúlega skömmum tíma.