141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kallaði eftir rökstuðningi við það sem sumir stjórnarandstöðuþingmenn hafa kallað gæluverkefni. Ég get strax nefnt eitt sem er uppsetning á náttúruminjasýningu í Perlunni, sem á að kosta 500 millj. kr. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji það forsvaranlegt að leggja í þennan kostnað og setja 500 millj. kr. í sýninguna meðan heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ er lokað aðra hverja helgi? Er það forsvaranlegt þegar hv. þingmaður talar um þá miklu vinnu sem fer fram í fjárlaganefnd plús það sem er búið að forgangsraða í verkefni?

Til að upplýsa hv. þingmann enn frekar fékk ég símtal frá bæjarstjóranum í Grundarfirði í gær þar sem hann tjáði mér að hann hefði verulegar áhyggjur af því að til stæði, og væri nánast búið að ákveða, að loka heilsugæslustöðinni þar þrjá daga í viku eða það yrði læknislaust. Heldur hv. þingmaður því virkilega fram að það séu forsvaranleg vinnubrögð og kallar svo á einhvern sérstakan rökstuðning fyrir því sem menn kalla gæluverkefni?

Hv. þingmaður fór líka yfir það ræðu sinni hvað væri hægt að gera mikið fyrir veiðileyfagjöldin og auðlindagjöldin af sjávarútveginum. Ég ætla ekki að deila um það við hv. þingmann eða taka umræðu um það núna en ég vil spyrja hann. Á sama tíma og verið er að taka öll þessi hundruð milljóna út úr þeim tveimur sjávarplássum sem ég nefni, annars vegar Grundarfirði og hins vegar Snæfellsbæ, er verið að loka heilsugæslustöðvunum með einum lækni yfir helgarnar. Svona er komið fyrir heilsugæslunni á þeim stöðum þegar niðurskurðartímanum er lokið og uppbyggingin hafin og ég spyr: Ef íbúarnir í þessum sveitarfélögum þurfa ekki þá grunnþjónustu sem heilbrigðisþjónusta er, hvaða þjónustu þurfa þeir þá?