141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Þetta var nú akkúrat það sem ég nefndi í ræðu minni, að við gætum ekki valið bita af einhverju veisluborði án þess að horfa á heildarmyndina. Við þurfum nefnilega alltaf að horfa á hana. Við vitum að í húsi föður míns eru mörg herbergi og það eru þannig að horfa þarf í öll horn. Menn geta ekki einangrað eitt og sagt án þess að horfa heildarmyndina: Þarna viljum við meiri fjármuni.

Náttúruminjasafn er allra góðra gjalda vert og það var löngu kominn tími til að við sýndum því tilhlýðilega virðingu. Það er ekki hægt að bera saman og segja að af því að peningar fóru í það sé verið að taka úr öðrum málaflokki eins og heilbrigðisþjónustunni. Það er bara ekki sanngjarnt. Hv. þingmaður sem hefur verið í fjárlaganefnd allan þennan tíma veit að það er mikil vinna að reyna að púsla saman fjármunum, vega og meta hvar þörfin fyrir þá er brýnust án þess að skera algjörlega niður einhverja ákveðna málaflokka. Það verður að horfa í öll horn í þeim málum. Hv. þingmaður ætti að vita það eftir allan þennan tíma í fjárlaganefnd.

Varðandi veiðigjaldið. Hv. þingmaður sagði að það væri tekið af þessum sjávarbyggðum. Hafa þær notið þeirra fjármuna hingað til? Ég bara spyr. Ætti staða Grundarfjarðar ekki að vera betri en hún er í dag ef byggðin hefði notið þessara fjármuna frá sjávarútveginum? Ég held að við ættum að sammælast um að taka eðlilegt veiðigjald af greininni og (Forseti hringir.) nota þá fjármuni til uppbyggingar, þar með talið á þeim stöðum sem hv. þingmaður nefndi, Grundarfirði og fleiri stöðum.