141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Jú, ég held að það sé enginn ágreiningur um að minnka þurfi skuldir ríkissjóðs. Að því höfum við verið að vinna og sýnt fram á gífurlegan árangur. Eftir því sem okkur tekst betur að greiða niður skuldir ríkissjóðs því meira fjármagn er til góðra mála og hvort sem við viljum telja þau gæluverkefni eða nauðsynlega grunnþjónustu þá eiga þau öll einhvern rétt á sér. Við þurfum að reyna að smyrja það sem réttlátast yfir samfélagið. Við viljum ekki safna upp vaxtaberandi skuldum heldur frekar reyna, þótt það sé erfitt, að greiða niður og fá inn tekjur eins og við höfum verið að gera. Við höfum þurft að skera niður en sá tími, erfiðasti tíminn, er að baki og þá finnst mér eðlilegt að við leyfum okkur að gleðjast yfir þeim árangri því hann er að skila sér.

Það er enginn sem neitar því að það hafi orðið árangur í hagstjórn landsins. Ég vildi gjarnan sjá þann mann sem kæmi hér upp og segði að það hefði ekki orðið neinn árangur í hagstjórn landsins. Svo geta menn alltaf deilt um akkúrat hvert þeir telja að sé komið. Við stefnum að frumjöfnuði árið 2014 og tölum um að skila ríkissjóði núna með þriggja milljarða halla, frá 216 milljarða halla, og ég held að það sé nú mjög gott og margir eru mér sammála í þeim efnum, bæði innlendir og erlendir sérfræðingar sem kunna að lesa úr hagtölum.