141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna því að sú leið hafi verið valin varðandi afnám haftanna að reyna að leiða saman þingflokkana og finna sameiginlega lausn á vandanum. Til þess hefur þessi nefnd verið að störfum og nú færist það yfir til formanna flokkanna. Ég mun að sjálfsögðu taka virkan þátt í því.

Eftir stendur þessi vandi: Annar stjórnarflokkurinn talar fyrir því að höftin verði ekki afnumin nema með inngöngu í Evrópusambandið. Hinn stjórnarflokkurinn er fullur efasemda um að þörf sé á því. Nú kemur utanríkisráðherra frá Brussel og segir: Ég hef fengið enn frekari staðfestingu á því að Evrópusambandið ætlar að hjálpa okkur við afnám haftanna.

Málið hvílir eins og mara á þjóðinni. Við erum föst í höftum þannig að það er ekki nema von að menn spyrji: Hvað á utanríkisráðherra við? Er það virkilega svo að Evrópusambandið ætli að losa okkur undan höftunum? Þegar kíkt er undir yfirborðið og athugað hvað býr að baki er það líklega, eins og forsætisráðherra segir, fagleg aðstoð og góð ráð. Það eru góð ráð sem við fáum frá Evrópusambandinu. Það er allt og sumt.