141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég tel enga ástæðu til að fúlsa við góðum ráðum frá Evrópusambandinu, hvaða skoðun sem menn annars hafa á því, um afnám haftanna og fá hjá þeim fagleg og tæknileg ráð í því efni. Eins og ég skildi málin í gær hafði það komið skýrt fram að ekki er hægt að ganga í Evrópusambandið meðan höftin eru við lýði. Ég tel mikilvægt að við reynum að ná samstöðu um að losa þau sem fyrst, en það er alveg ljóst að það að höftin eiga að afnemast eftir ár hefur haft þau áhrif að hægar hefur gengið að losa um snjóhengjuna, sem við þurfum að gera. Menn eru að bíða eftir því að komast út með þessa fjármuni af því að svo skammur tími er til stefnu samkvæmt því frumvarpi sem var samþykkt á þingi um að höftin yrðu losuð. Þetta þurfum við að fara yfir allt saman, vonandi á fundi á morgun með formönnum stjórnarflokkanna og fulltrúum þingflokkanna sem sitja í nefnd um afnám gjaldeyrishaftanna.