141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra var áðan spurð út í samskiptin við Evrópusambandið og svaraði með því að ræða algerlega óskylt mál sem er bréf frá nefnd um afnám hafta. Það vill svo til að ég ætla einmitt að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þetta bréf og viðbrögðin við því og ég vona að hæstv. forsætisráðherra svari þá ekki með því að ræða um Evrópusambandið.

Í bréfinu, eins og hæstv ráðherra kom inn á, eru býsna afdráttarlaus tilmæli til formanna stjórnmálaflokkanna um aðgerðir sem grípa þurfi til og yfirlit yfir stöðuna sem skapar þörfina fyrir þær aðgerðir. Er hæstv. forsætisráðherra sammála því mati sem birtist í bréfinu, m.a. að skuldastaða þjóðarbúsins liggi ekki nægilega vel fyrir, að það þurfi í fyrsta lagi að grípa til aðgerða til að bregðast við þeirri skuldastöðu sem þó er ljós, en jafnframt þurfi menn að gera sér betur grein fyrir því hver staða þjóðarbúsins er? Er hæstv. forsætisráðherra þeirrar skoðunar að aðstaða þjóðarbúsins sé töluvert verri en stjórnvöld hafa viljað a.m.k. ímynda sér fram að þessu? Hver eru viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við innihaldi bréfsins?