141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

tillaga um frestun viðræðna við ESB.

[10:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á fundi í utanríkismálanefnd fyrr í vikunni lagði meiri hluti nefndarinnar fram tillögu sem felur það í sér efnislega að viðræðurnar við Evrópusambandið yrðu settar á ís og þeim yrði ekki haldið áfram fyrr en aflað hafi verið samþykkis fyrir áframhaldandi viðræðum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það rifjar upp að fyrr í haust, í ágústmánuði, kom fram það sem ég hef kallað neyðarkall eða ákall frá nokkrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tveimur ráðherrum og formanni utanríkismálanefndar Alþingis, þar sem óskað var eftir því að fram færi það sem kallað var endurmat á þessum viðræðum. Ég spurði hæstv. innanríkisráðherra um málið í októbermánuði síðastliðnum og þá kom fram að engar slíkar viðræður hefðu farið fram á milli stjórnarflokkanna um málið. En því hafði einmitt verið svarað þegar málið var í umræðunni í ágúst að slíkar viðræður mundu og þyrftu að fara fram.

Það er auðvitað bagalegt að fundur í utanríkismálanefnd féll niður í morgun einhverra hluta vegna. Þá var ætlunin að ræða málið frekar þannig að það virðist þá bíða betri tíma að taka ákvörðun um með hvaða hætti málið verður lagt fram á Alþingi. En það liggur þá alla vega fyrir að meiri hluti utanríkismálanefndar er þeirrar skoðunar að stöðva beri viðræðurnar og ekki hefja þær nema meiri hluti þjóðarinnar kjósi svo.

Það er augljóst af þessu að komin er upp ný staða í málinu. Ég vil því spyrja hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra og formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til málsins? Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þeirrar tillögu sem fyrirsjáanlegt er að komi hér fram? Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þeirrar hugmyndar að leggja málið á ís og hefja ekki viðræður nema meiri hluti þjóðarinnar kjósi svo?