141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

tillaga um frestun viðræðna við ESB.

[10:50]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ekki ætla ég að gera frekari athugasemdir við það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn kemur afstöðu sinni á framfæri og formgerir hana í stórpólitísku, utanríkispólitísku máli af þessu tagi. Varðandi okkur Vinstri græn höfum við gert það alveg ljóst frá haustmissirinu og höfum ályktað um það í flokksráði okkar að við viljum fara yfir stöðuna í málinu þegar hallar að lokum kjörtímabilsins. Nú er að skýrast og liggur nokkuð ljóst fyrir eftir ríkjaráðstefnuna hvar málið muni standa við alþingiskosningar í vor og þegar nýtt kjörtímabil Alþingis hefst. Menn geta því farið yfir það hvernig halda á á málinu í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í íslenskum stjórnmálum og við sjáum blasa við. Það er stórt, mikilvægt og vandasamt mál og menn tala stundum af ótrúlegri léttúð um það, að mér finnst, hversu mikilvægt það er fyrir Ísland, utanríkistengsl okkar og orðstír, að haldið sé ábyrgt á málinu. Þetta er ekkert smámál til að leika sér með í þröngum, heimóttarlegum kaffibolla íslenskrar þrætubókalistar í stjórnmálum. (Gripið fram í: Er ekki mikilvægt að … í málið?)