141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

ýsugengd við Norðvesturland.

[10:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fréttir hafa borist af mikilli ýsugengd í kringum landið síðustu daga og sérstaklega við norðvestanvert landið, svo mikilli að útgerðir hafa neyðst til að leggja bátum. Það sem verra er að margir hafa hreinlega staðið í því að berja ýsuna af lunningunni og fleygja í sjóinn gríðarlegu magni af ýsu vegna þess að þeir komast ekki til annarra veiða vegna þessarar miklu gengdar.

Við vitum líka að ýsukvótinn hefur verið skorinn mikið niður síðustu ár og hann er nú ekki nema um það bil þriðjungur af því sem hann var fyrir skömmu síðan, 32 þúsund tonn í staðinn fyrir 100 þúsund tonn fyrir fimm árum. Það skýtur náttúrlega skökku við að á sama tíma og ýsugengdin er svona gríðarleg skuli vera svo naumt skammtað það sem menn fá að veiða. Er skelfilegt til þess að hugsa hversu mikil verðmætasóun er í því fólgin þegar aflanum er hent í ómældu magni úr öllum veiðarfærum, hvort sem það eru troll, net, snurvoð, lína eða hvað.

Ég vildi spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra, í ljósi þess að ekki er hægt að fá ýsukvóta leigðan á meðan ástandið er svona, hvort hæstv. ráðherra hafi hug á því að grípa til einhverra ráðstafana til að bæta úr þessu, t.d. að innkalla eitthvert hlutfall úr ýsukvótanum úr stóra aflamarkskerfinu og bæta þeim það þá upp í öðrum tegundum svo hægt sé að gera verðmæti úr þeim fiski sem annars er kastað frá borðstokkum núna í gríðarlegu magni, eins og sannverðugar og trúverðugar fréttir berast nú hvaðanæva af landinu.