141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

ýsugengd við Norðvesturland.

[10:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Svo það sé á hreinu þá talaði ég um sannverðugar og trúverðugar upplýsingar sem ég hef frá sjómönnum sjálfum um þetta mikla brottkast. Ég sé enga ástæðu til að draga í efa orð manna sem standa sjálfir í brottkasti.

Ég held að þegar hæstv. ráðherra segir að ekki séu faglegar eða vísindalegar forsendur til að skipta um skoðun í málinu þá sýnist mér nú takast hér á annars vegar kenningar og hins vegar staðreyndir um það sem er að gerast. Menn komast ekki um sjóinn fyrir ýsu, það er bara staðreyndin. En ég fagna því að hæstv. ráðherra sér ástæðu til að reyna að gera eitthvað í málinu, huga að leiðum, vegna þess að eitthvað verður að gera. Það er ekki hægt að horfa upp á slíkt eins og við sjáum t.d. varðandi síldina sem gengur á land í Kolgrafarfirði og á fjörur í kringum Snæfellsnes. Ekki mátti veiða þessa síld en nú sjáum við hana liggja steindauða (Forseti hringir.) í stórum flekkjum og þekja hafsbotninn. Ég held því ekki fram að annað eins sé í uppsiglingu með ýsuna, en það segir sig sjálft að það hlýtur að vera betra að veiða verðmætin (Forseti hringir.) en að sjá fiskinn falla dauðan til hafsbotns.