141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

hagvöxtur.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég held að ástæða sé til að rifja upp, þegar hv. þingmaður rekur þessar verðbólgutölur, hver staðan var þegar við tókum við þessu búi. Verðbólgan var þá 18% þannig að það er nokkur áfangi að ná henni niður í um 5%, þó að vissulega sé það allt of mikið og við stefndum að því að á næsta ári yrði hún 2,5%. Það mun taka eitthvað lengri tíma að ná verðbólgunni niður í það horf, en við skulum muna í hvaða stöðu við vorum. Atvinnuleysinu var spáð 10% en hvert er atvinnuleysið nú? Það sýnir auðvitað að við höfum náð árangri. Allt þetta ár hefur atvinnuleysi verið að minnka um 1,5–1,9 prósentustig og hefur dregið verulega úr atvinnuleysi, fyrir utan þann aukna kaupmátt sem við höfum náð.

Ég bið hv. þingmann að gera ekki lítið úr þeim framkvæmdum sem eru fyrirhugaðar, meðal annars á Bakka. Við höfum verið að fara yfir stöðu mála til að greiða fyrir þeirri uppbyggingu (Forseti hringir.) og hægt sé t.d. að ljúka samningum við PCC, fara í stækkun á höfninni og þær vegaframkvæmdir sem þarf til að hægt sé að hefja framkvæmdir, þannig að það er ýmislegt í gangi sem vekur bjartsýni og vonandi líka hjá þingmönnum.