141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg nú að þegar hv. þingmaður hugsar sig betur um telji hann ekki ástæðu til að fordæma tillögu sem felur það í sér að falla frá hækkunum á bensín, dísilolíu, þungaskatt, á bjór og létt vín, útvarpsgjöld og bifreiðagjöld, því að það eru einmitt sjónarmið sem stjórnarandstaðan hefur haldið hér uppi og áhrifin á niðurstöðu fjárlaga eru engin. Það koma 1,6 milljarðar inn í tekjum og fallið er frá 1.590 millj. kr. í tekjur þannig að nettóáhrifin á fjárlög eru hverfandi og reyndar jákvæð um 10 millj. kr.

Það er rétt að breytingarnar eru seint fram komnar en ég bið hv þingmann að hafa það í huga að fjárlaganefnd fékk fjárlögin 11. september. Við fengum hins vegar ráðstafanirnar í lok nóvembermánaðar og í raun og veru til umfjöllunar nú í þessum mánuði. Það er einfaldlega vegna þess hve seint það var fram komið að tillögurnar náðust ekki inn í salinn fyrr en nú, en ég hefði vænst þess að menn gætu fagnað efni þeirra út af fyrir sig.