141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gæti bara vel verið að ég fagni efni þessara tillagna en ég hef ekki fengið að sjá þær. Það eina sem við, fulltrúar minni hlutans á Alþingi, höfum fengið að heyra um þessar tillögur er ræða hv. þingmanns rétt áðan sem stóð yfir í þrjár mínútur. Slík vinnubrögð eru til skammar fyrir Alþingi og það veit hv. þm. Helgi Hjörvar.

Hvernig eigum við að geta farið í atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. um fjárlög þegar við vitum að tekjuhliðin rokkar um einhverja milljarða til eða frá? Fullyrt er að þetta muni ekki hafa áhrif á aðkomu ríkissjóðs. Gott og vel. Fullyrt er að þetta muni minnka þær álögur sem til stóð að leggja á heimilin í landinu. Gott og vel. En á Alþingi á að fara fram efnisleg umræða um tillögurnar sem slíkar og það veit hv. þingmaður.