141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í morgun komu mjög veigamiklar og stórfenglegar breytingar á skattkerfinu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Þær voru rifnar út með hasti, engir gestir, engar umsagnir og ekki neitt. Við vitum sem sagt ekki um hvað það fjallar nema að hækka á skatta á fjármagnstekjur einstaklinga um 1.600 millj. kr. Hvernig það gerist veit maður ekki og hvort það virkar veit maður ekki heldur.

Svo er þarna ýmislegt gott sem bendir til þess að kosningar séu í nánd, eins og t.d. að lækka á gjaldið á Ríkisútvarpið aftur, það á sem sagt að hækka það og svo á að lækka það aftur, og sama máli gegnir um vörugjald á bensíni, olíugjald, áfengisgjald og vegagjöld o.s.frv. Skuldir heimilanna hækka þá ekki eins mikið, sem sumir hafa gaman af að reikna út.

En ég rak augun í að komnir eru þrír nýir skattar á bílaleigur. Einn af þeim er hækkun á virðisaukaskatti í 27%, nýtt heimsmet frú forseti.