141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Hér mætir hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og gerir grein fyrir tillögu meiri hluta nefndarinnar sem mætir þeirri breytingartillögu sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd leggja fram við afgreiðslu fjárlaga fyrir 3. umr. Sú tillaga sem við sjálfstæðismenn fluttum gerði ráð fyrir því að verðlagsáhrif að upphæð 6–8 milljarðar gengju til baka. Meiri hluta efnahags- og skattanefndar þykir við hæfi að draga úr þessum útgjöldum á heimili landsins er nemur 2 milljörðum kr.

Sá dráttur sem orðið hefur á atkvæðagreiðslu um lokatillögu til fjárlaga næsta árs er einfaldlega þannig til kominn, til upplýsinga fyrir hv. þingmenn, að meiri hluti ríkisstjórnarflokkanna var í gær og allan morgun að bregðast við tillögu sjálfstæðismanna. Það veldur þeim drætti sem orðinn er á því að við höfum getað gengið til afgreiðslu. Hefði ekki verið farsælla að taka tillit til gagnrýni stjórnarandstöðunnar til muna fyrr og vanda til verka? Maður sér á þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir hvernig til hennar er stofnað og ég fullyrði að grunnur hennar er ekki vel ígrundaður. Ætlunin hjá hv. meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er að fjármagna hana með hækkun af tekjum af fjármagnseign einstaklinga. Hver eru efni til þess að leggja fram tillögu til hækkunar á þeim tekjupósti á tekjugrein fjárlaga um 1.600 millj. kr.? Liggur ekki fyrir að sparnaður í þjóðfélaginu er að dragast saman? Liggur ekki fyrir að inneignir einstaklinga í fjármálastofnunum hafa dregist saman og munu væntanlega gera það að öllu óbreyttu á næsta ári?

Það kann vel að vera að einstakir þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd hafi fyllri skýringar á þessu en við úr stjórnarandstöðunni sem höfum minni upplýsingar um málið erum úti á þekju að því leytinu til og ég spyr: Er það boðlegt að bjóða þingmönnum það þegar við erum komin ekki á lokametrana heldur síðustu sentimetrana við afgreiðslu á fjárlagafrumvarpi að bera fram þær breytingar sem hér var verið að kynna með þeim hætti sem raun ber vitni? Það er í mínum huga óboðlegt og er í mínum huga órækasta dæmið og sönnun þess að fjárlög komandi árs 2013 byggja á því prinsippi, einkennast af þeirri eyðslustefnu að ráðstafa væntu fé áður en menn hafa glóru um það hvað þeir koma til með að hafa í tekjur. [Kliður í þingsal.] Það er allt í lagi að ákvarða útgjöldin fyrst að mati hv. stjórnarmeirihlutamanna, hv. þingmanna. Við spáum bara í það seinna hvernig í ósköpunum við náum inn þessum tekjum. (Gripið fram í: Skálda í eyðurnar.) Skálda svo í eyðurnar af mikilli kúnst. Maður sér ágætlega að það hefur fjölgað skáldum í salnum þegar kemur að lokapunkti við atkvæðagreiðslu.