141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í dag er 20. desember. Samkvæmt starfsáætlun ætluðum við að klára í gær. Nákvæmlega núna er verið að kynna fyrir þingheimi umtalsverðar breytingar á skattkerfinu. Við sem sitjum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, í það minnsta þau okkar sem ekki eru í meiri hlutanum, vorum að sjá þær áðan. Um leið og við fengum að sjá þær nokkurn veginn, við áttum þarna að vísu notalega stund, var þetta tekið út. Af hverju er farið í þessar umtalsverðu breytingar? Það er vegna þess að í lok nóvember komu hugmyndir um skattlagningu frá hæstv. ríkisstjórn sem voru svo illa unnar að hv. þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. stjórnarmeirihlutinn, er búinn að vera á handahlaupum að bjarga því sem bjargað verður. Hvort þeim tókst það veit enginn vegna þess að við höfum ekki haft nein tækifæri til að skoða það. Það er ekki komin ein einasta umsögn frá einum einasta aðila um eina einustu tillögu hérna.

Ég fagna því samt sem áður að hæstv. ríkisstjórn hafi hlustað á okkur sjálfstæðismenn og aðra í stjórnarandstöðunni, við höfum ekki aðeins gagnrýnt að verið sé að hækka skatta á skuldum heimila landsins heldur líka að verið er að auka skuldir sérstaklega. Bara núna sjáum við skattahækkanir sem munu leiða til 4–5 milljarða hækkunar.

Menn fóru af stað með stóryrtar yfirlýsingar um að nú skyldu verða breytingar. Hér átti að koma neyslustýring þannig að enginn mundi borða neitt óhollt lengur. Lýðheilsustofnun kom og sagði: Þetta er skattaívilnun fyrir karamellur og súkkulaði. Þá sögðu menn: Nú á að einfalda kerfið þannig að þetta verður allt annað líf, en allir þeir sem komið hafa að þessu hafa sagt að þetta muni flækja kerfið. Þeir voru samt sem áður ekki búnir að sjá flækjustigið sem kom í morgun, en núna erum við komin með virðisaukaskatt á bílaleigur sem samsvarar 27%.

Síðan er ýmislegt annað hérna. Það er lagt til að aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum verði ekki lengur undanþeginn virðisaukaskatti. Hér eru margar tillögur sem okkur er ætlað að klára núna og ganga frá á næstu klukkustundum. Þetta er fullkomin óvissuferð. Ég get best trúað því að vinnulagið verði þannig að við munum sjá þetta verða að lögum á allra næstu klukkustundum. Ég get best trúað því að þessi ríkisstjórn muni standa þannig að málum. Við skulum bara biðja guð og góðar vættir að sjá til þess að eitthvað sé til í því sem þarna stendur og það standist því svo mikið er víst að við höfum ekki hugmynd um það.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)